Stærstu kvikmyndastjörnur heims flykkjast til Feneyja

Ein elsta og virtasta kvikmyndahátíð í heimi er hafin í Feneyjum. Ítalska leikkonan og grínistinn Emanuela Fanelli er kynnir hátíðarinnar og bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Alexander Payne er forseti dómnefndar. Á opnunarkvöldinu á miðvikudag hlaut þýski kvikmyndagerðarmaðurinn Werner Herzog heiðursverðlaun. Óskarsverðlaunahafinn Francis Ford Coppola afhenti Herzog verðlaunin. Bandaríska leikkonan Kim Novak hlýtur einnig heiðursverðlaun á hátíðinni. Hátíðin gefur oft vísbendingu um þær myndir sem keppast um Óskarsverðlaunin eftirsóttu. Í fyrra voru fjölmargar myndir, sem tilnefndar voru til Óskarsverðlaunanna, til sýninga á hátíðinni. Sem dæmi má nefna The Brutalist, sem hlaut þrjú Óskarsverðlaun. Þetta er í 82. skiptið sem hátíðin er haldin. Hún stendur til 6. september.