Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst tilkynna ákvörðun sína um nýjan þingflokksformann flokksins á morgun. „Framundan eru breytingar og spennandi tímar. Nú, sem aldrei fyrr, þarf íslenskt samfélag á sterkum Sjálfstæðisflokki að halda. Sjálfstæðisflokki sem stendur þétt með fólkinu í landinu, stétt með stétt,“ skrifaði Guðrún í færslu á Facebook-reikningi sínum í kvöld. Hún þakkaði Hildi Sverrisdóttur, fráfarandi þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, fyrir störf hennar í þágu þingflokksins undanfarin tvö ár. Hún segir Hildi skýrt dæmi um þingmann sem brenni fyrir íslenskt samfélag og vilji leggja sitt af mörkum fyrir landsmenn alla. Hún hafi barist af eldmóði fyrir íslenskt atvinnulíf og fjölskyldum landsins á grunni sjálfstæðisstefnunnar. „Hildur heldur áfram sem öflugur þingmaður Sjálfstæðisflokksins og við erum lánsöm að njóta hennar reynslu og þekkingar í þeim verkefnum sem fram undan eru.“ Hildur sagði af sér fyrr í kvöld en í færslu á sínum Facebook-reikningi þakkaði hún fyrir þann stuðning sem hún hefði frá þingmönnum um að halda áfram í hlutverkinu, en kvaðst hafa ákveðið að segja af sér til að forðast átök innan þingflokksins.