Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu með sjö atkvæðum gegn þremur í gær að flestir tollarnir sem stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur sett frá því að hann sneri aftur til valda í janúar standist ekki lög. Dómstóllinn leyfði tollunum engu að síður að vera áfram í gildi til 14. október svo ríkisstjórnin hefði tíma til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Trump lagði tollana með vísan til laga frá árinu 1977 (IEEPA) sem veita forsetanum heimild til að bregðast við „óvenjulegum og afbrigðilegum“ ógnum á tíma neyðarástands. Enginn af forverum Trumps hefur beitt þessum lögum til að leggja tolla. „Lögin veita forsetanum víðtækar heimildir til að grípa til ýmissa ráðstafana til að bregðast við yfirlýstu neyðarástandi en engar þessar ráðstafanir fela ótvírætt í sér heimildir til að leggja tolla eða skatta,“ sagði dómstóllinn. „Ólíklegt má heita að þing hafi ætlað sér með setningu IEEPA að víkja frá fyrri framkvæmd sinni og veita forsetanum ótakmarkað vald til að leggja tolla.“ Trump lýsti yfir neyðarástandi í apríl með vísan til þess að Bandaríkin flytja meira af vörum inn til landsins en úr landi (sem hefur verið raunin í marga áratugi). Trump gagnrýndi dóminn en sagðist bjartsýnn um að Hæstiréttur, sem er að meirihluta skipaður dómurum sem skipaðir voru af Trump og öðrum forsetum úr Repúblikanaflokknum, myndi komast að öndverðri niðurstöðu.