Fanga, sem grunaður er um að eiga sök í hvarfi Madeleine McCann, verður að öllum líkindum sleppt úr fangelsi á næstu þremur vikum. Hinn 48 ára Christian Brückner situr þegar í fangelsi í Þýskalandi fyrir nauðgun en er frjáls ferða sinna 17. september. Madeleine var fjögurra ára þegar hún hvarf árið 2007 í Portúgal. Hún hafði verið skilin eftir sofandi í íbúð í bænum Praia de Luz ásamt yngri bróður og systur á meðan foreldrar hennar sátu á veitingastað í um hundrað metra fjarlægð. Brückner hefur ekki verið ákærður í tengslum við hvarf McCann en hann liggur sterklega undir grun um að hafa numið hana á brott og orðið henni að bana. Hann er sagður hafa viðurkennt það fyrir vini sínum að hann hafi numið McCann á brott. Vitað er að Brückner fór ferða sinna á gulum og hvítum Volkswagen-húsbíl og vitni segjast hafa séð þannig bíl við orlofsíbúðirnar kvöldið sem Madeleine hvarf. Þá hafa vitni sagst hafa séð mann líkan Brückner með ungt barn nærri orlofshúsunum sama kvöld. Þýska lögreglan segir farsímanotkun hans sýna að hann hafi verið í bænum þegar litla stúlkan hvarf. Saksóknarinn Hans Christian Wolters sagðist telja Brückner hættulegan en að ekki væri annað í stöðunni lagalega séð en að láta hann lausan án tafar. „Brückner er ekki bara sá sem við grunum helst, hann er sá eini sem við grunum. Það er enginn annar.“ Wolters sagði gögn liggja fyrir sem bentu til þess að Brückner bæri ábyrgð á hvarfi McCann en ekki nóg til þess að tryggja sakfellingu fyrir dómi. Brückner er smáglæpamaður og dæmdur kynferðisafbrotamaður sem hefur áður verið dæmdur fyrir að brjóta á börnum árin 1994 og 2016.