Þrjú fórust í eldi í mótmælum í Indónesíu

Að minnsta kosti þrjár manneskjur létust í eldi sem kviknaði í mótmælum við opinbera byggingu í borginni Makassar í Indónesíu í dag. Mótmæli hafa staðið yfir um allt landið frá því á mánudaginn vegna hás framfærslukostnaðar, verðbólgu og gremju vegna ýmissa fríðinda indónesískra þingmanna. Ein kveikjan að mótmælunum var frétt um að þingmenn landsins hlytu nú húsnæðisstyrk að andvirði um 370.000 kr. auk þingmannslauna sinna. Styrkurinn, sem var samþykktur í fyrra, er um tífalt hærri en lágmarkslaun í Indónesíu. Reiði mótmælenda jókst mjög eftir að lögregla ók yfir ökumann leiguvélhjóls í mótmælum í Djakarta með þeim afleiðingum að hann lést. Myndskeið af atvikinu fór í dreifingu á þriðjudaginn og hefur hellt olíu á eld mótmælanna. Í mótmælunum í Makassar kastaði fólk steinum og Molotov-kokteilum í bíla og opinberar byggingar. Ritari borgarráðs Makassar greindi fréttastofu AFP frá því að eldur hefði kviknað í ráðhúsinu og þrjár manneskjur hefðu látist í eldsvoðanum. „Við getum ekki séð svona lagað fyrir. Í mótmælum kasta mótmælendur venjulega bara steinum eða brenna hjólbarða fyrir framan skrifstofuna. Þeir hafa aldrei ruðst inn í bygginguna eða brennt hana.“ Tveir hinna látnu voru starfsmenn hjá borgarstjórn og sá þriðji var embættismaður. Prabowo Subianto forseti hvatti landsmenn til stillingar í myndbandsávarpi sem birt var á föstudaginn og bað Indónesa að treysta ríkisstjórninni og forystu hans.