Finnski flugherinn hættir að flagga hakakrossum

Finnski flugherinn hyggst hætta að flagga fánum sem skreyttir eru hakakrossum til þess að forðast að styggja nýja bandamenn Finnlands í Atlantshafsbandalaginu. Flugherinn hefur notað fána með hakakrossum frá því stuttu eftir sjálfstæði Finnlands árið 1918. Þegar þessir fánar voru teknir í notkun höfðu nasistar í Þýskalandi enn ekki gert hakakrossinn að einkennistákni sínu og táknið vakti því ekki sömu hugrenningar og í dag. Þrátt fyrir að hakakrossinn sé nú víðast hvar álitinn haturstákn á Vesturlöndum og sé sums staðar bannaður með lögum hefur finnski flugherinn haldið áfram að nota einkennismerki og fána með hakakrossum. Flugherinn og almenningur í Finnlandi hafa jafnan staðið fast á því að þessir hakakrossar hafi ekkert með nasista að gera. „Við hefðum getað haldið áfram að nota þennan fána en stundum kemur til neyðarlegra aðstæðna með erlendum gestum,“ sagði Tomi Böhm, leiðtogi í finnska flughernum, í viðtali við finnska ríkisfjölmiðilinn Yle. Í tölvupósti til fréttastofu AP sagði finnski herinn að ákvörðun um að breyta herfánunum hefði verið tekin 2023, sama ár og Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið. Herinn hafnaði því þó að ákvörðunin hefði verið tekin vegna inngöngu Finnlands í bandalagið. Markmiðið sé að endurspegla betur sjálfsmynd flughersins eins og hann er núna.