EM í dag: Nær Ísland að leggja Belgíu?

Það er stór dagur á EM í dag því 12 leikir eru á dagskránni. 3 þeirra verða sýndir beint á sjónvarpsrásum RÚV. Öll úrslit, nýjustu fréttir og stöðu í riðlum má finna á EM síðu RÚV. 12:00 Ísrael – Ísland (RÚV) Líkt og á fimmtudag er fyrsti leikur dagsins leikur okkar Íslendinga. Nú er það lið Belgíu sem er andstæðingurinn. Líkt og Ísland tapaði Belgía fyrsta leik sínum á mótinu. Þeir mættu grönnum sínum frá Frakklandi og töpuðu með 92 stigum gegn 64. Þetta er 12. leikur Íslands á EM á þriðja mótinu og líklega hafa sigurlíkurnar fyrirfram sjaldan verið betri en nú. Ísland hefur aldrei unnið leik á EM. Belgía er í 40. sæti styrkleikalista FIBA og tíu sætum neðar situr íslenska liðið. Belgíska liðið hefur mikla reynslu af Evrópumótinu og er nú með í 19. sinn og sjötta sinn í röð. Síðast varð liðið í 14. sæti. Leikurinn hefst kl. 12 á RÚV og verður upphitun í Stofunni frá 11:20. 15:00 Frakkland - Slóvenía (RÚV) Fyrirfram úrslitaleikur riðilsins. Frakkar eru eitt af stórliðum Evrópu og unnu þetta mót 2013 og eru silfurlið Ólympíuleikanna fyrir ári síðan. Lið þeirra þar er þó talsvert ólíkt liði þeirra á mótinu í ár. Enginn Victor Wembanyama, Evan Fournier, Rudy Gobert né Nicolas Batum. Það er skarð en þeir sem í staðinn koma eru þó engir meðalskussar. Frakkar unnu Belga örugglega í fyrsta leik og geta stigið stórt skref í átt að sigri í riðlinum í dag. Slóvenar unnu EM 2017. Þá sló ungur leikmaður þeirra í gegn, leikmaður sem í dag er ein skærasta stjarna evrópsks körfubolta: Luka Doncic. Hann skoraði 34 stig í tapi Slóvena gegn Póllandi í fyrstu umferðinni; tapi sem kom bæði á óvart og ekki. Slóvenar ættu að vera betri en þetta, en Pólland er á heimavelli með öllu sem því fylgir. 18:30 Pólland - Ísrael (RÚV 2) Lokaleikur dagsins er leikur heimamanna og Ísraela. Pólverjar byrjuðu mótið á að vinna Slóveníu og sendu þar skýr skilaboð. Meðbyrinn í fullri Spodek-höllinni mun gefa þeim mikið og það, ásamt því að vera með betra lið, gerir þá talsvert sigurstranglegri.