Týndi drengurinn fannst heill á húfi

Tólf ára drengur, sem leitað var að í Ölfusborgum austur af Hveragerði í nótt, hefur fundist heill á húfi. Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti um þetta á Facebook-síðu sinni í morgun. „Lögreglan á Suðurlandi vill færa öllum þeim sem tóku þátt í leitinni – viðbragðsaðilum, björgunarsveitum og fjölmörgum öðrum – innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt framlag, samheldni og ómetanlega vinnu,“ skrifaði lögreglan. „Samstaða og úthald allra sem komu að málinu skipti sköpum.“ „Drengurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar og er nú kominn í faðm fjölskyldunnar.“ Drengurinn hafði síðast sést klukkan fjögur eftir hádegi í gær þegar leitin hófst. Um 150 björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum á Suðurlandi, frá Hveragerði að Þjórsá og björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í leitinni.