Þriðja fámennasta sveitarfélag landsins er Skorradalshreppur, sem hefur ítrekað hafnað sameiningu við aðrar sveitir við Borgarfjörð. Íbúakosningar um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar hefjast eftir viku, föstudaginn 5. september og standa yfir til 20. september. Kosið er í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og bæði Borgarbyggð og Skorradalshreppur þurfa að samþykkja tillöguna til að af sameiningu verði. Þrátt fyrir að íbúar Borgarbyggðar séu um 60 sinnum fleiri en Skorrdælingar er líklegt að úrslitin verði ráðin í Skorradal, þar sem hart hefur verið tekist á um ágæti sameiningar. Hlutverk sveitarfélaga orðið gjörólíkt starfi gömlu hreppanna Starfsemi sveitarfélaga verður sífellt flóknari og þyngri í vöfum. Stærri sveitarfélög eru hagkvæmari í rekstri og hafa meiri burði til að reka þjónustu við íbúa sína. Raunar hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna tveggja þegar komist að þeirri niðurstöðu að sameining myndi hafa fleiri kosti en ókosti í för með sér fyrir íbúa. Bent er á tækifæri fyrir skilvirkari stjórnsýslu, jafnara aðgengi að þjónustu og að fjárfestingargeta sameinaðs sveitarfélags yrði meiri en hvors fyrir sig. Borgarbyggð varð til árið 1994 með sameiningu fjögurra hreppa. Árið 1998 bættust þrír við og árið 2005 þrír í viðbót. Skorradalshreppur kaus í hvert sinn að halda sig utan við sameiningar. Íbúar höfnuðu sameiningu síðast í kosningum 2005 og aftur í íbúakönnun 2014. Óvíst um samstarfið ef sameiningartillaga verður felld Guðveig Lind Eyglóardóttir oddviti Borgarbyggðar bendir á að Borgarbyggð hefur verið með samning við Skorrdalshrepp um þjónustu síðan 2006. „Í dag er það þannig og hefur verið í mörg ár að við sjáum í rauninni um flesta þá þætti sem lúta að lögbundnu verkefnum sveitarfélagsins, það er að segja sem snýr að félagþjónustu, skólaþjónustu, barnavernd og ýmislegt annað.“ Það breytist ekki mikið fyrir íbúa Borgarbyggðar ef af sameiningu verður en Guðveig segir engu að síður vera vinnu að semja um og halda úti þjónustu fyrir annan hrepp. Hún segir framtíðina ráðast í kosningunum í september. „Í rauninni þá snýst þetta fyrir mér um það hvort við ætlum að halda þesu samstarfi sveitarfélaganna áfram eða ekki og það er bara svolítið á höndum beggja sveitarfélaganna að ákveða það. Samstarfsnefndin hefur ekki fjallað um hvort Skorradalshreppi standi áfram til boða að reiða sig á þjónustu Borgarbyggðar ef svo fer að sameiningartillagan verði felld. Gjá milli sjálfstæðissinna og sameiningarsinna í Skorradal Á kynningarfundi um sameiningartillöguna í Borgarnesi í vikunni kom fram að harðar deilur hafi verið um sameiningaráform innan sveitarfélagsins, raunar svo harðar að djúp gjá hafi myndast milli sameiningarsinna og sjálfstæðissinna. Sjálfstæðissinnar í Skorradal hafa gagnrýnt forsendur sem samstarfsnefndin byggði á og kölluðu eftir því að skoða fleiri valkosti en Borgarbyggð ef til sameiningar kæmi. Þau hafa kallað eftir auknu samráði við íbúa og segja mörgum spurningum ósvarað um hagsmuni Skorrdælinga. Þau benda á að í stóru sveitarfélagi geti hagsmunir lítils samfélags í einum dal hæglega týnst. Sporin hræði, því minni sveitir sem runnu inn í Borgarbyggð á sínum tíma upplifi valdaleysi. Kalla eftir heimastjórn Pétur Davíðsson sem situr í hreppsnefnd Skorradalshrepps spurði á fundinum hvers vegna ekki væri stefnt að því að setja á fót heimastjórnir eins og gefið hafi góða raun í Múlaþingi og Vesturbyggð. Guðveig segir það hafa komið til tals en sameiningartillagan gerir ekki ráð fyrir heimastjórnum: „Borgarbyggð er mjög víðfeðmt sveitarfélag og ef til þess kæmi þá værum við náttúrulega að tala um allt sveitarfélagið og það er stórt,“ segir hún. Að hennar mati búa Skorrdælingar nú þegar við skert aðgengi að stjórnsýslunni þar sem þau nýta þjónustu Borgarbyggðar en hafa ekkert að segja um ákvarðanir sem þar eru teknar. Hún bendir á að heimastjórnir séu ekki eina leiðin til að tryggja öflugt samtal milli íbúa og stjórnsýslunnar: „Okkur er bara í lófa lagt að búa til þá uppbyggingu á lýðræðinu eða þátttöku íbúa í lýðræðinu eins og við viljum, hvort sem það er með heimastjórnum, spretthópum eða starfshópum, fleiri íbúafundum, fleiri íbúakosningum eða annað.“ Þess má geta að á kynningarfundi var stungið upp á því að sameinað sveitarfélag yrði nefnt sveitarfélagið Borgarfjörður. Það var raunar mjótt á mununum við síðustu sameiningu, árið 2005 Borgarfjörður yrði ofan á en ekki Borgarbyggð. Guðveig segir þó slíkar ákvarðanir vera í höndum nýrrar sveitarstjórnar. Athugasemdir við kjörskrá til skoðunar hjá innviðaráðuneyti Spurningar hafa vaknað um kjörskrá í Skorradalshrepp í kjölfar þess að Þjóðskrá gaf út leiðrétta kjörskrá. Sex nöfn bættust við frá fyrri útgáfu, fólk sem skráð er til heimilis á stöðum þar sem engin búseta var við síðustu kosningar. Að minnsta kosti einn af þessum stöðum er eyðibýli sem er ekki hæft til búsetu. Þó að engin leið sé að vita hvort þessir nýu íbúar styðji sameiningu eða sjálfstæði hefur oddviti bent á að lýðræðislegast sé að þeir sem sannanlega búi í dalnum kjósi um framtíð hans. Þá hefur athugasemdum verið komið á framfæri við innviðaráðuneytið. „Við munum skoða þessa athugasemdir og ef þetta er beinlínis kæra til okkar þá munum við úrskurða sem æðra stjórnvald,“Segir Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra. Íbúafjöldi í hreppnum hefur sveiflast mikið síðustu ár. Í dag búa 68 manns í dalnum, samkvæmt Þjóðskrá, þar af eru 62 á kjörská. Sex nöfn til eða frá eru því tæp 10% atkvæða. Ráðherra fylgjandi sameiningu Aðspurður segist Eyjólfur ekki hafa leitt hugann að því hvað gerist ef sameiningartillaga verður felld. „Ég tel bara mjög mikilvægt að af þessari sameiningu verði,“ segir hann. „Vegna þess að það er búið að vera að flytja verkefni til sveitarfélaganna og þau þurfa að vera burðug og geta staðið undir þeirri þjónustu sem þeim er falið.“ Hann hefur þó fulla trú á að sameining sé báðum aðilum í hag og verði Borgfirðingum til góða. „Þau fóru í formlegar sameiningarviðræður og þegar sveitarfélag fer í formlegar sameiningarviðræður við annað sveitarfélag þá er vilji beggja megin til að sameinast.“