Fimm verslunarmiðstöðvar á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu eru komnar í hendur óvænts nýs eiganda. Sá er sjeikinn Tahnoun bin Zayed Al Nahyan frá Abú Dabí, sem var nýlega skráður í danska fyrirtækjaskrá í fyrsta sinn. Tahnoun er stærsti hluthafi og eiginlegur stjórnandi fyrirtækjasamsteypu sem gengu í júlí frá kaupum á fimm dönskum verslunarmiðstöðvum ásamt tveimur íbúðakjörnum á Kaupmannahafnarsvæðinu. Eignirnar eru Holte Midtpunkt, Lyngby Stationscenter, Vallensbæk Stationstorv, Taastrup Torv og Frihedens Butikscenter. Tahnoun er meðal voldugustu manna Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hann er þjóðaröryggisráðgjafi landsins og varaleiðtogi furstadæmisins Abú Dabí. Hann er sonur Zayed bin Sultan Al Nayan, stofnanda Sameinuðu arabísku furstadæmanna og bróðir núverandi forseta landsins, Múhameðs bin Zayed Al Nahyan. Tahnoun er jafnframt yfirmaður leyniþjónustu landsins og hefur því stundum verið kallaður „njósnasjeikinn“. „Hann á risastórt fyrirtæki sem fjárfestir líka í gervigreind og það er ekki svo langt síðan hann var í Bandaríkjunum til að funda með Trump um fjárfestingar í landini, sagði Fannie Agerschou Madsen, doktorsnemi hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni og Hróarskelduháskóla, við DR. „Þannig að þetta er ekki bara hver sem er og ég reikna helst með því að það sé ekki hann persónulega sem hefur setið og ákveðið að það eigi að kaupa Taastrup Torv.“