Staðfestir ekki að hann taki við sem þingflokksformaður

Ólafur Adolfsson tekur við keflinu af Hildi Sverrisdóttur sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt heimildum Vísis . Hildur sagði af sér í gær sem þingflokksformaður. Hún sagði það gert til að etja ekki til átaka innan flokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, sagði í gærkvöld að hún hygðist leggja fram tillögu um nýjan þingflokksformann í dag. Ólafur Adolfsson segir í samtali við fréttastofu að það verði gert á þingflokksfundi klukkan 11. Spurður að því hvort hann sé nýr þingflokksformaður segir Ólafur: „Það kemur í ljós á eftir.“ En hvernig litist þér á að taka við því kefli? „Mér líst yfirleitt vel að taka að mér verkefni, svo það sé sagt. Almennt. En þetta er ekki orðið. Svo ég held að ég segi lítið um þetta mál fyrr en það er ljóst að af þessu verður,“ segir Ólafur. Ólafur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og fyrsti þingmaður kjördæmisins. Hann hlaut kjör til Alþingis í síðustu kosningum, haustið 2024. Hann er lyfjafræðingur að mennt og starfaði sem lyfsali allt þar til hann var kjörinn á þing. Ekki náðist í Guðrúnu Hafsteinsdóttur við vinnslu fréttarinnar.