Leit að tólf ára dreng sem stóð yfir í gærkvöldi og í nótt lauk farsællega rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Hann varð viðskila við foreldra sína um klukkan 16 í gær, nærri Ölfusborgum sem er sumarhúsabyggð skammt austan Hveragerðis. Drengurinn fannst í grennd Ölfusborga, ekki langt frá útgangspunkti leitarinnar, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Jón Þór segir leitarsvæðið hafa verið stórt. Leitað var á milli Ölfusborga og Hveragerðis og þar í kring. „Þetta eru opin, stór svæði. Það var orðið ansi stórt, leitarsvæðið, og margir sem voru komnir af stað í aðgerðina,“ segir Jón Þór. Það liggur ekki ljóst fyrir hve margir tóku þátt í leitinni, en þegar yfir lauk voru yfir 250 búnir að skrá sig til leitar, upplýsir Jón Þór. Búið var að boða út sveitir til þess að taka við leitinni af fólki sem byrjaði í gærkvöldi og í nótt. Ekki þurfti á þeim viðbótarmannskap að halda vegna þess að drengurinn fannst. Nutu aðstoðar landhelgisgæslunnar Fyrst voru björgunarsveitir úr Ölfusi og Árborg kallaðar út, ásamt hundateymi frá höfuðborgarsvæðinu með víðavangshunda. Í hópinn bættist síðan sporhundur. „Svo var bætt í og fengnir gönguhópar og drópahópar. Svo notuðu sveitirnar sexhjól og buggy-bíla til að fara þessa slóða og göngustíga sem eru víða,“ segir Jón Þór. Drónar voru auk þess notaðir við leitina. Þeir eru búnir hitamyndavélum. Þyrla landhelgisgæslunnar tók einnig þátt í leitinni, hluta nætur. Jón Þór segir gæsluna hafa leitað um nokkurra klukkutíma skeið og þurft að fylla á eldsneyti þyrlunnar einu sinni á staðnum. „Þannig að það var töluvert lagt í að finna drenginn og sem betur fer fannst hann,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.