Gengur ekki til lengri tíma að greiða með starfsemi hjúkrunarheimilisins

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur farið þess á leit við velferðarráð bæjarins að taka fyrir málefni hjúkrunarheimilisins Hornbrekku. Þórir Hákonarson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir heimilið hafa verið rekið með miklum halla síðustu ár. Hann segir Hornbrekku afar mikilvægan hlekk í sveitarfélaginu, bæði hvað varði þjónustu og ekki síður atvinnulíf. Rekstrarhalli hefur verið mikill síðustu ár. Þórir segir það hlutverk ríkisins að tryggja þjónustuna og nauðsynlegt sé að bæta rekstarumhverfið með einhverjum hætti. „Eins og bara dæmin sanna að á undanförnum árum þá hafa sveitarfélögin verið að fara svona hvert hjúkrunarheimilið á fætur öðru hefur verið að fara þessa leið að sveitarfélögin hafa verið að rauninni skila því til ríkisins aftur.“ Sífellt fleiri sveitarfélög vilji losna undan rekstrinum Í ársbyrjun tók Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN, við rekstri hjúkrunarheimilisins Sæborgar á Skagaströnd. Þórir segir Fjallabyggð í sömu hugleiðingum. Sífellt fleiri sveitarfélög kjósi að fara þá leið. Fjallabyggð hefur falið velferðarráði bæjarins að taka málið til umfjöllunar og Þórir segir ekki tímabært að svo stöddu að segja til um hvaða leið sé best að fara. Það sé þó ljóst að einhverjar breytingar þurfi að gera. Sveitarfélagið hafi að undanförnu verið að greiða með starfseminni sem ekki gangi upp til lengri tíma. „Við þurfum að leita leiða, annað hvort að hækka tekjurnar sem eru þá greiðslur frá ríkisvaldinu eða að reyna að ná fram einhverri hagræðingu í einhverjum rekstri. Til dæmis með stækkun heimilisins og fjölga þá hjúkrunarrýmum. En hvorugt virðist vera ákjósanlegur kostur akkúrat í augnablikinu.“