Elísabet önnur Englandsdrottning studdi ekki útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ef marka má nýja bók sem byggir á vitnisburðum innanbúðarmanna úr Buckingham-höll. Í Power and the Palace , væntanlegri bók Valentines Low, fyrrum konungslegs blaðamanns breska blaðsins The Times, segir að drottningin heitin hafi viljað að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu, þegar Bretar kusu um Brexit árið 2016. „Við ættum ekki að ganga úr ESB,“ á drottningin að hafa sagt við ráðherra í ríkisstjórn Davids Cameron forsætisráðherra þremur mánuðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. „Það er betra að halda sig við þann fjanda sem maður þó þekkir.“ Hún er þó sögð hafa furðað sig á flókinni stjórnsýslu sambandsins nokkrum sinnum og á eitt sinn að hafa sagt: „Þetta er fáránlegt“, meðan hún fletti í gegnum dagblöð yfir morgunverði. Cameron, sem vildi vera áfram í ESB og sagði af sér sem forsætisráðherra þegar í ljós kom að breska þjóðin var honum ósammála, sagði að drottningin hefði alltaf gætt sín að láta ekki pólitískar skoðanir sínar í ljós. Þó hafi stundum mátt heyra á henni að hún væri hlynnt aðild, þar sem sambandið hafi verið stofnað til að sameina Evrópu eftir seinna stríð, sem drottningin mundi vel. Í frétt Independent um þessi má l er það rakið að Cameron hafi aldrei viljað nýta sér það í baráttunni um Brexit, að líklega væri drottningin honum sammála. Það gerðu útgöngusinnar þó, eins og sást með fyrirsögn götublaðsins Sun í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar: Drottningin styður Brexit. Þar sagði að drottningin hafi trúað varaforsætisráðherra Breta árið 2011, Nick Clegg, fyrir því að henni þætti Evrópa vera á rangri leið. Þessu neitaði Clegg harðlega og sakaði fyrrum þingmann Íhaldsmanna, Michael Gove, um að hafa lekið þeirri falsfrétt.