Tölur um samdrátt í efnahagslífinu „villandi“

Tölur um samdrátt í efnahagslífinu eru dálítið villandi, að mati Ernu Bjargar Sverrisdóttur, aðalhagfræðings Arion banka. Það segir hún vegna þess hve mikil áhrif innflutningur á vörum og þjónustu hefur á landsframleiðsluna. Hagstofa Íslands birti í gær nýjar tölur um landsframleiðslu. Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,9% á öðrum fjórðungi þessa árs. „Margir sem horfa á þetta gætu hugsað með sér að hagkerfið sé ískalt og að við séum að sigla inn í kreppu,“ segir Erna. Útlitið sé þó ekki svo svart, einkaneysla og fjárfesting í hagkerfinu hafi aukist á milli ára. Innflutningur jókst „gríðarlega“ Í einföldu máli er landsframleiðsla mælikvarði á öll útgjöld þjóðarinnar og samspil inn- og útflutnings. Þjóðarútgjöld samanstanda að langmestu leyti af einka- og samneyslu, af fjárfestingu og að litlu leyti af birgðabreytingum. Við þá tölu bætist svo við útflutningur en innflutningur dreginn frá og samtals færir það okkur verga landsframleiðslu. Það sem hafði mest áhrif á samdrátt annars fjórðungs var halli á utanríkisviðskiptum. Samdrátturinn er því „bókhaldslegur“ að sögn Ernu. „Við erum innflutningshagkerfi. Innflutningur jókst hjá okkur gríðarlega,“ segir hún. „Í útflutningshlutanum er meira á brattann að sækja.“ Krónan of sterk Erna bendir á að þjónustuútflutningur hafi aukist eftir sterkt sumar hjá ferðaþjónustunni. Vöruútflutningur sé aftur á móti erfiður og tollaáhrif séu nú þegar farin að koma fram. Þá bendi margt til þess að krónan sé of sterk um þessar mundir. „Einfaldlega af því að við erum að flytja svo mikið inn. Neyslan á erlendri grundu hefur verið gríðarleg. Útflutningsgreinarnar eiga erfitt með þetta gengi. Er þetta sjálfbært til lengri tíma? Ég efast um það,“ segir Erna. Hún veltir því fyrir sér hvort gengið gefi á endanum eftir eða hvort útflutningsfyrirtæki, sem fá minna fyrir sinn snúð þegar krónan er sterk, þurfi að ráðast í uppsagnir og hagræðingaraðgerðir. Mögulega sé sitt lítið af hvoru í vændum. Gerir ráð fyrir óbreyttum kúrs hjá Seðlabankanum Erna segir að leiða megi að því líkur að vaxtastefna Seðlabankans hafi eitthvað með samdráttinn að gera. Stefna bankans á að draga úr innlendum umsvifum til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. „Það eru auðvitað merki um að hagkerfið sé að kólna, allavega ef við horfum til dæmis á vinnumarkaðinn,“ segir Erna. „En það er samt ekki hægt að segja að innlendi hlutinn í hagkerfinu sé í einhverjum dvala eða samdrætti.“ Í þessari stöðu eru bæði rök fyrir og á móti því að stýrivextir verði lækkaðir, að sögn Ernu. Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað einróma að halda stýrivöxtum óbreyttum í síðustu viku. Síðan þá hefur Hagstofan birt nýja verðbólgumælingu en hún hjaðnaði á milli mánaða. Það er jákvætt, að mati Ernu sem telur bankann samt halda sínum kúrs. „Seðlabankinn hefur bara eitt lögbundið markmið. Þó að við séum að sjá jákvæða þróun í verðbólgu, þá er hún samt 3,8%. Verðbólgumarkmiðið er 2,5%. Þau hafa gefið til kynna að þessi síðasta míla verði erfið. Verðbólgan hefur verið að sveiflast á tiltölulega þröngu bili síðustu mánuði, í kringum 4%. Í einhverjum tilfellum má færa rök fyrir því að það sé kominn tími á lækkun,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.