Ólafur Adolfsson nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Ólafur Adolfsson er nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins eftir að Hildur Sverrisdóttir sagði af sér formennsku í gær og sagði ástæðuna vera að komast hjá átökum innan flokksins. Þingflokkurinn hittist á fundi í Valhöll klukkan 11 í morgun þar sem samþykkt var einróma að Ólafur tæki við hlutverkinu. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, lagði skipan Ólafs til á fundinum. „Það er ný forysta í Sjálfstæðisflokknum og það er alveg ljóst að nýrri forystu fylgja alltaf breytingar,“ segir Guðrún. Hún segir breytingarnar hluta af því að efla Sjálfstæðisflokkinn en segir þær ekki tengjast flokkadráttum innan flokks eða vera viðbrögð við slæmu gengi í skoðanakönnunum. „Nei, ég er bara að endurstilla gangverkið til þess að við getum náð sem mestum árangri.“ „Þá er ekkert óeðlilegt við það þó að við endurstillum aðeins gangverkið og köllum í gamlan fyrirliða úr fótboltanum sem við óskum eftir að verði fyrirliði þingflokks Sjálfstæðisflokksins í vetur,“ segir Guðrún. Ólafur segir að áherslubreytingar eigi eftir að fylgja. „Það er þannig að nýju fólki auðvitað fylgja nýjar áherslur og það mun vera í mínu tilfelli líka.“