Vesturbæjarlaug opnar aftur klukkan 16 í dag eftir stutta lokun. Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar í dag. Laugin lokaði um miðjan dag í gær eftir að í ljós kom að þrep ofan í laugina voru enn of hál og að endursanda þurfti þau á ný. Það er í þriðja sinn sem laugin lokar vegna framkvæmda í sumar en hún var lokuð í um tvo mánuði vegna umfangsmikilla viðgerða. Hún þurfti síðan að loka aftur skömmu eftir opnunina vegna galla á málningarvinnu en málning var tekin að flagna af botni laugarinnar. Sundhöll Reykjavíkur er einnig lokuð vegna viðhalds en opnar á ný á mánudaginn. Þá var Grafarvogslaug einnig lokuð í gær vegna heitavatnsleysis.