Hvatti þingflokkinn til að styðja tilnefningu nýs formanns

Hildur Sverrisdóttir hefur látið af formennsku þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Adolfsson hefur tekið við hlutverkinu. Hildur segist hafa hvatt þingflokkinn til að styðja tillögu formanns um nýjan þingflokksformann á fundi í Valhöll í dag. Hún segir það hafa verið upplegg formannsins, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, að tilnefna nýjan þingflokksformann en að sjálf hafi hún ákveðið að stíga frá og styðja við hana til að koma í veg fyrir átök í þingflokknum. „Þetta var ákvörðun formanns og svona er nú bara pólitíkin stundum en ég óska Ólafi velfarnaðar í sínu hlutverki og veit að hann mun standa sig með miklum sóma.“