Íbúar í Þorlákshöfn uggandi vegna fyrirætlana Carbfix

Fyrr á þessu ári hætti Carbfix við áætlanir sínar um að staðsetja Coda Terminal stöð í Straumsvík því ekki náðust samningar við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Nú hefur Carbfix kynnt áform sín um uppbyggingu Coda stöðvar í Þorlákshöfn og á skipulagsgátt stjórnvalda hafa borist 32 umsagnir frá íbúum, stofnunum og fyrirtækjum í Ölfusi. Flestar umsagnirnar eru fremur neikvæðar í garð fyrirætlana Carbfix. Guðlaug Ásgerður Eiríksdóttir, Íbúi í Þorlákshöfn, segir nálægð verkefnisins við heimili bæjarbúa vekja ugg. „Þá þarf að keyra þessa tanka, sem að eitrið er geymt í, af þessu svæði sem er meðfram allri strandlengjunni hérna og við búum við strandlengjuna, þetta eru nokkur skref á milli.“ Vatnsauðlindir ofarlega í huga Áhyggjur sem ummælendur lýsa á skipulagsgáttinni snúa flestar að hugsanlegum áhrifum á vatnsauðlindir og fiskeldi. Einnig eru loftgæði vegna skipaumferðar nefnd og Minjastofnun Íslands bendir á hugsanleg áhrif á menningarminjar á svæðinu. Veðurstofa Íslands bendir á að stíga þurfi varlega til jarðar vegna mikillar vatnsnotkunar sem fylgi verkefninu. Landsnet gerir ekki athugasemd við málið. Guðlaug segir að það hljóti að vera góð ástæða fyrir því að Hafnarfjörður hafnaði samstarfi við Carbfix. „Við höfum í raun ekki forsendur til að ræða efnislega hvað er í þessum úrgangi annað en að fólk veit að þetta er kjarnorkuúrgangur en þegar að Hafnarfjarðarbær er búinn að hafna þessu þá hugnast manni ekki að þetta komi neinstaðar á Íslandi.“ Hún segir íbúakosningu nauðsynlega. „Ég held að það gæti verið góð leið til að sjá vilja íbúa og klók leið fyrir bæjarstjórn að fara eftir vilja þeirra,“ segir Guðlaug.