Jarðfallið skar í sundur hraðbraut, lestarteina, vinnusvæði og göngustíg og skolaði öllu ofan í Nesvatnet, sem er stöðuvatn skammt norðan við Þrándheim í Noregi. Úr lofti blasir við stórt skarð þar sem fallið varð. Umfangsmikil leit var gerð að einum manni sem var við vinnu þegar jörðin gaf undan. Óttast var að hann hefði hafnað í vatninu. Maðurinn er talinn af, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar í Þrændalögum og leitin tekur mið af því. Lögreglan í Þrændalögum ætlar að rannsaka hvað orsakaði jarðfallið, meðal annars hvort framkvæmdir við járnbraut hafi haft þar áhrif. Manns sem vann á framkvæmdasvæðinu er saknað. Lögreglan ætlar að rannsaka tildrög jarðfallsins og komast að því hvort það megi rekja til framkvæmda. Opinbera járnbrautarfélagið Bane Nor hefur verið við framkvæmdir við járnbrautateinana þar sem fallið varð. Jarðfræðingar segja jarðveginn í grennd afar óstöðugan. Búið er að flytja þrjá íbúa tveggja húsa í nágrenninu á brott. Einn bíll hafnaði í vatninu. Ökumaðurinn komst út af sjálfsdáðum og var færður á sjúkrahús. Vitni, sem rétt slapp við skriðuna, segir í samtali við NRK að maðurinn hafi verið með bát í eftirdragi sem hann náði að klöngrast upp í þegar skriðan hreif bílinn með sér ofan í vatnið.