Lögreglan í Búlgaríu leitar íslensks manns á fimmtugsaldri, Ólafs Austmanns. Síðast sást til Ólafs á bensínstöð í borginni Sofia þann 18. ágúst, en síðan þá hefur ekkert til hans spurst. Í færslu á Facebook biðlar systir Ólafs til almennings sem þekkir til þar ytra eða er þar staddur að hafa augun hjá sér. Ólafur er rúmlega 184 cm á hæð, grannvaxinn með dökkt hár. Þegar hann hvarf var hann klæddur svartri skyrtu og gallabuxum. Skólaus og skilríkjalaus Að sögn systur Ólafs hefur hann glímt við veikindi og krampaköst. Þá var hann skólaus, símalaus og skilríkjalaus þegar síðast sást til hans. Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, staðfestir í samtali við fréttastofu að tilkynning um týndan einstakling hafi borist á borð lögreglu þann 21. ágúst. „Þá fer í gang hefðbundið ferli og haft samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sem sendi fyrirspurn á lögregluna í Búlgaríu. Hann fór úr landi í júlí og síðast sást til hans 18. ágúst.“ Garðar segir að hingað til hafi leitin ekki borið árangur. „Hann er nú eftirlýstur í alþjóðakerfi lögreglu sem týndur einstaklingur.“