Það er áfall að forysta Palestínu fái ekki vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna, að mati Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra. Í næsta mánuði fundar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar ætlaði fjöldi þjóðarleiðtoga undir forrystu Emmanuels Macrons Frakklandsforseta að reyna að fá fullveldi Palestínu viðurkennt. Þeirri ráðagerð hafa leiðtogar í Bandaríkjunum verið mótfallnir. Stjórnmálaleiðtogar frá Palestínu geta aftur á móti ekki sótt þingið eftir að vegabréfsáritanir þeirra til Bandaríkjanna voru felldar úr gildi. Þorgerður Katrín segir að tryggja þurfi að raddir allra heyrist á þinginu. „Það er auðvitað ekki gott þegar verið er að stoppa vegabréfsáritanir til forystu Palestínu til þess að sitja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það er áfall, það er áfall fyrir diplómasíuna núna um þessar stundir og ekki síst núna þegar það er aukinn þungi og stuðningur að færast í það að styðja við tveggja ríkja lausnina.“ Utanríkisráðherra segir mikilvægt að allar raddir heyrist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í næsta mánuði. Ísraelsher skilgreinir Gaza-borg nú sem vígvöll og Rauði krossinn segir ómögulegt að rýma borgina með öruggum hætti. Ómögulegt að rýma Gaza-borg með öruggum hætti Ísraelsher hefur drepið minnst fimmtíu manns á Gaza það sem af er degi. Meira en helmingur þeirra bjó í Gaza-borg. Íbúar borgarinnar eru um milljón talsins. Þeir reyna að flýja sífellt harðari hernað Ísraela en herinn skilgreinir borgina nú sem vígvöll. Það er í raun enginn staður fyrir þetta fólk til að flýja á á Gaza-ströndinni. Innviðir eru allir í rúst og mikill skortur á mat og öðrum nauðsynjum. Forseti alþjóðahreyfingar Rauða krossins segir ómögulegt að rýma Gaza-borg með öruggum hætti. Ber öll einkenni þjóðarmorðs „Ég hef sagt að það er um þjóðernishreinsanir að ræða og þetta ber öll einkenni þjóðarmorðs þegar er verið að skoða þetta,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um stöðuna á Gaza. Hún segir stöðuna óviðunandi og að stjórnvöld vilji sjá meiri aðgerðir af hálfu alþjóðasamfélagsins. „Það þarf að hjálpa fólki. Það er að deyja fólk á hverjum einasta degi, bæði út af hungri, sem er notað sem vopn í þessum átökum öllum, en ekki síður hitt að það er verið að ráðast á fólk sem er meðal annars að leita mannúðaraðstoðar og leita matar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.