Sérfræðingur hjá héraðssaksóknara hafnar því að hafa lekið gögnum

Sérfræðingur hjá héraðssaksóknara er með stöðu sakbornings í rannsókn tengdri starfsemi PPP ehf. og meintum brotum á þagnarskyldu og öðrum starfsskyldum hjá embætti héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara. Hann hafnar því alfarið að hafa lekið gögnum frá embættinu til fyrirtækisins. Sérstakur saksóknari gerði samning við ráðgjafafyrirtækið PPP, sem er til rannsóknar vegna umfangsmikils gagnaþjófnaðar, um sérfræðiráðgjöf á sviði rannsókna árið 2012. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hefur síðan höfðað mál gegn öðrum stofnenda þess í tvígang fyrir gagnaleka. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að tölvusérfræðingur hjá embættinu að nafni Heiðar Þór Guðnason væri með stöðu sakbornings í málinu. Þetta staðfestir Heiðar í samtali við fréttastofu. Segir gróflega að sér vegið Hann hefur verið fastráðinn hjá embættinu frá árinu 2012 en annaðist verktakastörf hjá því þar á undan. Hann kveðst ekki hafa verið sendur í leyfi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurlandi. „Ég er mjög óhress með að vera skilgreindur sem sakborningur og finnst bara gróflega að mér vegið með þessum ásökunum.“ segir Heiðar. RÚV fjallaði í vor um starfsemi PPP - njósnafyrirtækis sem Jón Ótt­ar Ólafsson og Guðmundur Haukur Hauksson, þáverandi starfsmenn sérstaks saksóknara, stofnuðu árið 2011. Þar kom fram að þeir hefðu stundað njósnir fyrir Björgólf Thor Björgólfsson um hóp fólks sem stefndi honum á sínum tíma. Grunur er um að Jón Óttar og Guðmundur hafi nýtt sér gögn sem þeir höfðu aðgang að hjá sérstökum saksóknara til njósna. Guðmundur er látinn. Setti upp sama kerfi hjá PPP og hjá embættinu Í umfjöllun blaðsins sagði að Heiðar hefði komið að stofnun PPP með ýmsum hætti. Heiðar segir augljóst að Jón Óttar hafi sakað hann um að hafa lekið gögnum úr embættinu til PPP. Hann bíði þess að rannsókn lögreglu sanni sakleysi hans. Engin gögn styðji við það að hann hafi haft aðkomu að málinu. „Ég var ekki að leka neinum gögnum og ég skil ekki hvers vegna hann er að bera þetta upp á mig. Ég kunni ekkert nema gott af þessum manni að segja fyrir þetta.“ Spurður um tengsl sín við PPP kveðst hann hafa kynnst tvímenningunum er hann vann sem verktaki fyrirtækisins Opin kerfi fyrir embætti sérstaks saksóknara. Hann hafi í tvígang gert mönnunum vinagreiða með því að hjálpa þeim við að setja upp skrifstofu PPP. Þeir hafi gefið honum sjónvarp fyrir hjálpina. Spurður hvort hann hafi starfað fyrir PPP svarar hann neitandi. Hann hafi enn unnið fyrir Opin kerfi þegar PPP hafi leigt Clearwell-tölvukerfi frá þeim, sem einnig var notað hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann hafi sett kerfið upp fyrir Jón Óttar og Guðmund sem verktaki Opinna kerfa en ekki haft fjaraðgang að því.