„Pönkaraleg“ risaeðla með volduga varnargadda vekur furðu fornleifafræðinga

Fornleifafræðingar fundu nýlega steingervðar leifar harla óvenjulegrar risaeðlu í Marokkó. Um það bil metra langir gaddar sköguðu nánast út úr öllum líkama dýrsins sem ber fræðiheitið s picomellus afer . Það var á dögum á krítartímabilinu fyrir 165 milljónum ára og er elsta dæmi um nánast brynvarðar risaeðlur af gerðinni ankylosauria. Athygli rannsakanda vekur að broddarnir þöktu allan líkamann og voru áfastir beinum dýrsins sem Susannah Maidment, einn fornleifafræðinganna, segir óþekkt meðal dýra, lífs eða útdauðra. Ekki fannst nægilega mikið af beinum svo átta megi sig á stærð dýrsins. Forvígismaður rannsóknarinnar, Richard Butler, prófessor við Háskólann í Birmingham, segir eðluna einhverja þá undarlegustu sem fundist hafi. „Þessi risaeðla var pönkari síns tíma,“ segir Butler kímilega í samtali við BBC . Eins og alkunna er skörtuðu margir pönkarar voldugum hanakömubum og klæðnaði með löngum göddum. Spicomellus afer bar meira að segja volduga gaddaól um hálsinn og beitt vopn á broddi halans. Allt þetta er mjög sérstætt, að sögn rannsakenda, sem segja vert að huga að endurskoðun kenninga um þróun ankylosauia-eðlanna. Talið er að þær hafi tekið að þróa með sér varnarbúnað undir lok krítartímabilsins þegar fram komu stórar kjötæturisaeðlur. Álitið hefur verið að varnirnar hafi þróast og styrkst smám saman og því kveðst Butler undrandi að sjá svo þróaðar varnir skepnu sem var uppi svo snemma.