Ekki vegna flokkadrátta, segir formaður

Ólafur Adolfsson er nýr þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hildur Sverrisdóttir hætti til að forðast átök. Tillaga Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, um þessa breytingu, var samþykkt einróma á fundi þingflokksins í Valhöll í morgun. „Það lá alltaf ljóst fyrir að ný forysta myndi gera breytingar,“ sagði Guðrún. Ólafur sagði að þetta hefði borið brátt að. Þú varst einn af þeim sem studdir Guðrúnu í hennar formannsframboði í vor - er verið að verðlauna þig? „Það er góð spurning. Þú verður að spyrja Guðrúnu að því,“ svaraði Ólafur. Spurður hvort þessi breyting tengdist flokkadráttum innan flokksins svaraði hann: „ Þú yrðir þá að spyrja einhvern annan en mig.“ Þegar Guðrún var spurð sömu spurningar var svarið: „Nei.“