Robbi, nýr rafknúinn þjónn á Greifanum á Akureyri, lærir um þessar mundir að rata um veitingasalinn. Eigendur staðarins segja hann venjast vel og vekja mikla kátínu, bæði meðal gesta og starfsmanna. Helstu verkefni Robba eru að færa fólki mat og drykk, ásamt því að aðstoða við frágang af borðum. Vélmenni hefur tekið til starfa á veitingahúsinu Greifanum á Akureyri. Eigendurnir segja að gestir séu ánægðir með nýja þjóninn. Stefnt er að því að hann geti síðar meir leyst starfsmenn af á stöðum með lægra þjónustustig. Arinbjörn Þórarinsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Greifans, segir vélmennið fyrst og fremst hugsað sem hjálparhellu fyrir starfsmenn. Eigendur sjái þó margvísleg tækifæri til frambúðar. „Við erum með annan stað hérna á Akureyri. Þar ætlum við að láta hann í raun og veru koma svolítið í staðinn fyrir þjónustuna þar. Það er svona staður sem er með minni þjónustu.“