Ítalskt málverk, sem nasistar stálu fyrir rúmlega 80 árum, dúkkaði nýlega upp í fasteignaauglýsingu í Argentínu. Sérfræðingar telja enga ástæðu til að halda að þetta sé eftirlíking. Hefðarfrúin keypt á nauðungasölu Málverkið heitir Portrett af hefðarfrú eða Portrait of a Lady og er af Contessu Colleoni. Það er eftir málarann Guiseppe Ghislandi og var í eigu hollenska listaverkasalans Jaques Goudstikker þar til hann lést af slysförum 1940, þegar hann var að flýja innrás nasista í Holland. Hann var gyðingur. Stuttu eftir andlátið keypti Hermann Göring, einn nánasti samstarfsmaður Hitlers, listaverkasafn Goudstikker í heild sinni á nauðungasölu. Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk náðist að endurheimta hluta safnsins en Portrett af hefðarfrú skilaði sér ekki, og ekkert hefur spurst til þess síðan. Röktu málverkið til Suður-Ameríku Þar til núna. Hollenska dagblaðið AD náði að rekja ferðir málverksins alla leið til Argentínu í Suður-Ameríku. Samkvæmt skjölum sem dagblaðið hefur undir höndum komst málverkið í hendur Friedrich Kadgien, sem var aðstoðarmaður Göring. Hann flúði til Sviss 1945 og þaðan til Argentínu, þar sem hann bjó til dauðadags. Blaðið segist hafa gert ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við dætur Kadgien sem búa í Buenos Aires en verið hafnað. Það var ekki fyrr en blaðamaður fór þangað og bankaði á heimili annarrar þeirra sem hlutirnir fóru að gerast. Þar sá hann skilti um að húsið væri til sölu og eftir að hafa skoðað fasteignaauglýsinguna rak hann augun í málverkið sem hékk upp á vegg í húsinu. Lögregla gerði húsleit í vikunni en þá var málverkið hvergi sjáanlegt og er þess nú leitað. Listfræðingar eru sannfærðir um að þetta sé upprunalega málverkið og segja tveir sérfræðingar hjá menningarráðuneyti Hollands að engin ástæða sé til þess að halda að þetta sé eftirlíking. Þó komi það ekki alveg í ljós fyrr en þeir skoða málverkið með eigin augum.