Krílahvolpar læra í gegnum leik

Á hverjum laugardegi er boðið í krílahvolpapartí, þar sem ungir hvolpar sýna sig og sjá aðra og þroskast í gegnum leik. Hundaþjálfari segir þetta ekki síður mikilvægt fyrir eigendurna. Níu til sextán vikna hvolpar eru gjaldgengir í krílahvolpapartíin sem eru haldin í Hundaakademíunni í Kópavogi. Þeir eru af öllum stærðum og gerðum og læra á lífið í gegnum leik. Ungir hvolpar, svokallaðir krílahvolpar, hittast á laugardögum - skemmta sér og þroskast undir leiðsögn hundaþjálfar. Hvolpaeigandi segir að sér hlýni í hjartanu þegar hún mætir í partíið. Kenna þeim að leika fallega „Hérna erum við að grípa félagsmótunarskeiðið hjá hvolpum sem er eitt mikilvægasta tímabil í þeirra lífi,“ segir Þórhildur Kristjánsdóttir hundaþjálfari hjá Hundaakademíunni. „Við erum að kenna hvolpunum að vera rólegir innan um aðra hunda. Við erum að kenna þeim að leika fallega.“ En svo er þetta líka mikilvægt fyrir eigendurna? „Nákvæmlega, líka það. Við erum að fara yfir mikla fræðslu hérna líka, merkjamál hunda og hvernig hundar leika og haga sér.“ Á námskeiðinu var Seifur 12 vikna golden retriever hvolpur með eiganda sínum Atla Má Guðfinnssyni. „ Þetta er fyrsti krílatíminn okkar þannig að núna erum við bara að leyfa honum að læra að leika við aðra hunda,“ sagði Atli. Krúttílegast í heimi Þarna voru líka þau Svanhildur Sif Haraldsdóttir og Moli Seifur, af tegundinni mini maltese og hann er 10 vikna. „Þetta er bara krúttílegast í heimi. Manni er svo hlýtt í hjartanu á eftir, ég hef áður verið hérna og þetta er bara best. Þeir læra líka svo mikið, slökun og leika við aðra hunda,“ sagði Svanhildur. Erlingur Einarsson og var með Mosa 16 vikna hvolp af tegundinni pembroke welsh corgi. Erlingur sagði tilgang þeirra aðallega að gefa Mosa tækifæri til að leika við aðra hvolpa. „En svo fæ ég fultl af ráðum og ráðleggingum í þessum tímum þannig að þetta hefur verið mjög gott fyrir okkur báða.“ Er mikilvægt fyrir Mosa að hitta aðra hunda? „Já, sérstaklega fyrstu vikurnar þegar félagsmótunin er sterkust.“