Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir hernað Ísraela á Gaza bera öll merki þjóðarmorðs. Ísraelsher hefur drepið minnst 50 manns á Gaza það sem af er degi og þar af 26 í Gaza-borg. „Ég hef sagt að það sé um þjóðernishreinsanir að ræða og þetta ber öll einkenni þjóðarmorðs þegar verið er að skoða þetta,“ sagði Þorgerður Katrín í kvöldfréttum. Þjóðarmorð, eða hópmorð, er hugtak notað yfir það þegar reynt er að útrýma hópi fólks, þjóð, þjóðarbroti, trúarhópi eða öðru. Utanríkisráðherra segir hernað Ísraela á Gaza bera öll merki þjóðarmorðs. Dósent við lagadeild Háskóla Íslands segir alþjóðaskyldur Íslands hljóta að vera virkjaðar ef stjórnvöld telji svo vera. Hafa skyldu til að koma í veg fyrir þjóðarmorð Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, segir lykilatriði skilgreiningar þjóðarmorðs ekki bara vera að það sé verið að myrða margt fólk heldur að það sé gert með þeim ásetningi að útrýma hópnum í hluta eða heild. Ásetningurinn er það sem jafnan reynist erfiðast að sanna fyrir alþjóðadómstólum. Utanríkisráðherra fullyrðir að á Gaza eigi sér stað þjóðernishreinsanir en að hernaðurinn beri öll merki þjóðarmorðs. Þessi orð virðast valin af kostgæfni. Um þjóðarmorð gildir sérstakur samningur í alþjóðalögum, sem gæti skyldað Ísland til að grípa til aðgerða. „Í tengslum við þjóðarmorð þá hafa öll ríki skyldur að alþjóðalögum. Skyldu til að koma í veg fyrir þjóðarmorð og beita sér að því marki sem þau framast geta til að gera það,“ segir Kári. „Ef íslensk stjórnvöld eru á þeirri skoðun að og eru tilbúin að fallast á að aðstæður þarna beri öll merki þjóðarmorðs, þá hljóta þessar skyldur Íslands að vera orðnar virkar og þá er eiginlega orðin næsta spurning mín til stjórnvalda hvað nákvæmlega séu stjórnvöld að gera og er það nóg að mati stjórnvalda, svona í fyrsta kasti, til að uppfylla þær skyldur?“