Brandon Johnson borgarstjóri Chicago hefur undirritað tilskipun með fyrirmælum til lögreglunnar í borginni um að starfa ekki með né aðstoða þjóðvarðliða eða hermenn alríkisstjórnarinnar ef Donald Trump Bandaríkjaforseti sendir herlið til borgarinnar. Trump hefur undanfarna daga hótað að senda hermenn til Chicago, að eigin sögn til að ná stjórn á glæpum í borginni og koma á lögum og reglu. Trump hefur á þessu ári sent hermenn til bæði Los Angeles og til Washington í óþökk borgaryfirvalda. „Þetta snýst um að tryggja að við séum viðbúin,“ sagði Johnson við fjölmiðla þegar hann skrifaði undir tilskipunina. Hann sagði hana ætlaða til að tryggja „raunverulega, skýra leiðsögn“ til borgarstarfsmanna og allra borgarbúa um „hvernig við getum staðið gegn þessari harðstjórn“. Í tilskipuninni er lögreglumönnum einnig gert að klæðast einkennisbúningum sínum, gera grein fyrir sér, fylgja reglum um búkmyndavélar og bera ekki grímur til þess að hægt sé að greina á milli þeirra og útsendara á vegum alríkisins. „Beiting herafla alríkisins í Chicago án samþykkis borgaryfirvalda grefur undan lýðræðislegum venjureglum, brýtur á fullveldi borgarinnar, ógnar borgaralegu frelsi og skapar hættu á stigmögnun ofbeldis frekar en að tryggja frið,“ segir í tilskipuninni.