Thunberg siglir til Gaza á ný

Greta Thunberg ætlar að gera aðra tilraun til þess að sigla til Gazastrandarinnar með hjálpargögn. Hún leggur af stað ásamt hundruðum aðgerðasinna frá 44 löndum með smáskipaflota frá Spáni í dag, á sunnudag. Flotinn nefnist Alþjóðlegi Sumud-flotinn, en sumud þýðir þrautseigja á arabísku. Thunberg gerði áður tilraun til að rjúfa hafnarbann Ísraela um Gazaströndina með smábátaflota í júní. Ísraelskir hermenn stöðvuðu bát hennar á alþjóðlegu hafsvæði, tóku Thunberg og aðra skipverja til fanga og vísuðu þeim síðan frá Ísrael. „Það er ekki gyðingahatur að segja að við ættum ekki að vera að sprengja fólk, að maður ætti ekki að þurfa að búa við hernám, að allir ættu að hafa rétt til þess að lifa í frelsi og reisn, sama hver maður er,“ sagði Thunberg við fréttastofu Sky News. Ráðamenn í Ísrael hafa ítrekað vænt Thunberg og aðra gagnrýnendur á framferði Ísraelshers í Gazastríðinu um gyðingahatur. Thunberg sagðist ekki hafa áhyggjur af áhættu sem kunni að fylgja ferðinni, heldur hefði hún áhyggjur af þögn heimsins um það sem væri að gerast á Gaza. „Ég er skelfingu lostin að sjá að við virðumst hafa glatað öllum mannleika okkar, og það virðist ekki vera nein samúð eftir í heiminum hjá miklum meirihluta fólks sem getur sitið í sófanum og horft á þjóðarmorð raungerast.“ Meðal annarra sem sigla með smábátaflotanum eru bandaríska leikkonan Susan Sarandon, írski stjórnmálamaðurinn Paul Murphy og portúgalska stjórnmálakonan Mariana Mortágua.