Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra var sérstakur gestur á óformlegum fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn í gær. Þetta kom fram í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins . Á fundinum var rætt um innrás Rússa í Úkraínu, frekari þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi og mögulegar aðgerðir til að stemma stigu við skuggaflota Rússlands. Eitt íslenskt fyrirtæki, Vélfag, hefur orðið fyrir efnahagsþvingunum vegna tengsla við skuggaflotann svonefnda. Auk Þorgerðar mættu Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs og Stephen Doughty Evrópumálaráðherra Bretlands á fundinn. „Það var mikil samstaða meðal ríkjanna hér um að við ætlum áfram að standa þétt við bakið á úkraínsku þjóðinni í varnarbaráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu í tilkynningunni. „Það er óþolandi að Rússar skuli standa í vegi fyrir öllum tilraunum til friðarumleitana og ákallið um réttlátan og varanlegan frið til handa úkraínsku þjóðinni stendur óhaggað. Þessu gegndarlausa ofbeldi Rússa verður að linna og það strax.“ Þorgerður Katrín tók einnig þátt í óformlegum kvöldverði utanríkisráðherranna kvöldið áður „Þar nýtti ég tækifærið til að koma mikilvægum hagsmunum Íslands gagnvart Evrópusambandinu á framfæri, þar á meðal hagsmunum okkar er snúa að verndarráðstöfunum,“ segir hún í tilkynningunni. Í tilkynningunni kemur einnig fram að Þorgerður Katrín hafi átt tvíhliða fund með spænska utanríkisráðherranum José Manuel Albares Bueno. Þau ræddu málefni Gaza og tvíhliða samskipti Íslands og Spánar, meðal annars í tengslum við fyrirhugaða opnun sendiráðs Íslands í Madríd.