Andstæðingar dagsins: Pólland

Pólska liðið á sér langa sögu í Evrópskum körfubolta og hefur verið fastagestur á EuroBasket í gegnum tíðina. Liðið hefur unnið til fjögurra verðlauna – silfur árið 1963 og þrívegis hefur liðið endað í þriðja sæti, síðast 1967 – og komst í undanúrslit á HM 2019. Þrátt fyrir sveiflukennda árangra hefur Pólland ávallt átt leikmenn sem geta skilað stórleik á stóra sviðinu, og nú stefnir ný kynslóð ásamt reynsluboltum að því að færa þjóðinni nýja sigra. Helstu leikmenn Póllands eru eftirfarandi: Bandaríski bakvörðurinn Jordan Loyd er nýjasti liðsstyrkur Pólverja en hann fékk ríkisborgararétt í ágúst og er nú þegar orðinn lykilmaður í hópnum. Loyd er þekktur sem sterkur sóknarmaður í EuroLeague. Hann sýndi strax hvað í honum býr í fyrsta landsleik sínum á EuroBasket 2025 þegar hann setti niður 32 stig gegn Slóveníu og leiddi Pólland til óvænts sigurs auk þess skoraði hann 27 stig gegn Ísrael. Með reynslu úr sterkustu deildum Evrópu er Loyd sá leikmaður sem getur breytt gangi leikja á stuttum tíma. Fyrirliðinn Mateusz Ponitka er sá leikmaður sem hefur haldið pólska landsliðinu á floti undanfarin ár. Ponitka hefur reynslu af EuroLeague og EuroCup og er þekktur fyrir fjölhæfni sína – getur bæði stjórnað leikjum, sótt stig og lagt upp fyrir liðsfélaga. Á EuroBasket 2022 skrifaði hann nafn sitt í sögubækurnar með þrefaldri tvennu í sögulegum sigri gegn Slóveníu og í ár heldur hann áfram að bera fyrirliðabandið. Í fyrsta leiknum á mótinu setti hann 23 stig og tók sjö fráköst og í leik tvö skoraði hann 16 stig og tók tíu fráköst. Ungur en afar efnilegur miðherji, Aleksander “Olek” Balcerowski , er framtíðarvon Pólska körfuboltans. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar sankað að sér titlum – varð m.a. EuroLeague-meistari með Panathinaikos árið 2024 og hefur tvisvar verið valinn besti ungi leikmaður EuroCup. Í landsliðinu gegnir hann lykilhlutverki í teignum þar sem hann sameinar hæð, styrk og góða skotnýtingu. Í opnunarleiknum gegn Slóveníu skilaði hann 11 stigum og sex fráköstum, en margir telja að hans hlutverk muni aðeins aukast þegar á mótið líður.