Sólin skín skært suðvestanlands

Það er von á rólegu veðri í dag með norðaustan golu eða kalda. Búast má við súld eða rigningu með köflum norðan- og austanlands. Suðvestan til verður lengst af þurrt og milt og þar ætti sólin að skína skært langtímum saman, eins og það er orðað í veðurpistli morgunsins frá Veðurstofu Íslands. Það gætu þó myndast einhverjar síðdegisskúrir. Þær eru líklegri á morgun heldur en í dag. Hiti verður á bilinu 9 til 19 stig, hlýjast sunnan til. Í Vestur-Evrópu er aftur á móti leiðindaveður þessa dagana. Því veldur djúp og víðáttumikil lægð vestur af Írlandi.