Um klukkan þrjú í nótt barst vaktstöð Landhelgisgæslunnar björgunarkall frá 150 tonna fiskiskipi sem var með veiðarfæri föst í skrúfu sinni. Áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns var send á vettvang. Skipið var svo dregið til hafnar á Flateyri eftir að búið var að koma taug á milli þess og Gísla. Þegar útkallið barst var Gísli nýkominn til hafnar á Ísafirði eftir að hafa dregið annað fiskiskip sem hafði líka fengið veiðarfæri í skrúfuna. Það útkall hófst rétt fyrir klukkan 18 í gær. Þegar Gísli hafði dregið skipið til Suðureyrar um klukkan hálf ellefu í gærkvöld var landað úr því. Það var svo dregið til Ísafjarðar. Þegar þangað var komið var klukkan að verða 3. „Það var því vart búið að binda landfestar Gísla þegar seinna útkallið barst,“ segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.