Álag á aðstandendur eitt af því sem flýtir fyrir flutningi aldraðra á hjúkrunarheimili

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að einn af hverjum fimm jarðarbúum verði 60 ára eða eldri árið 2050. Fólk eignast færri börn, lifir lengur og meiri ábyrgð flyst á færri afkomendur og ættingja. Inga Valgerður Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur bar saman umönnunarbyrði á Íslandi, Finnlandi, Belgíu, Þýskalandi og Ítalíu í doktorsverkefni sínu í hjúkrunarfræði. Fjallað var um rannsóknina í nýjasta tölublaði Sjúkraliðans. Inga Valgerður vildi meðal annars kanna hvers vegna aðstandendur aldraðra á Íslandi fundu fyrir meiri umönnunarbyrði en aðstandendur í hinum löndunum. Inga hefur starfað í heimahjúkrun frá 1997 og vildi athuga hvort hægt væri að ná betri árangri og gera fólki kleift að búa lengur á eigin heimili, jafnvel þótt það hefði mikla þörf fyrir aðstoð. Doktorsverkefni hennar tók til á þriðja þúsund manns, 65 ára og eldri, sem fengu heimahjúkrun og heimaþjónustu. „Alla vega kom í ljós að þeir einstaklingar sem lenda í þessu úrtaki, eru með betri færni hér á landi en í þessum samanburðarlöndum. Þannig að það var kannski þá staðfest það sem oft hefur verið haldið fram,“ segir Inga og vísar til fullyrðinga um færni aldraðra hér á landi. Hún segir að það sé svo sérstakt rannsóknarefni hvað hin löndin gera öðruvísi. Umönnunarbyrði meiri hér en í samanburðarlöndunum Inga segir að hærra hlutfall aðstandenda fyndi fyrir umönnunarbyrði hér en í hinum löndunum. Ólíkar hefðir geti skýrt þetta. Konur eru meirihluti aðstandenda í umönnun og mikil atvinnuþátttaka kvenna hér á landi kunni að hafa áhrif. Umönnunarbyrði, álag sem fylgir umönnun, er eitt af því sem getur spáð fyrir um hvort einstaklingur flytur á hjúkrunarheimili. Inga segir að tekið sé tillit til þess þegar metin er þörf á að flytja á hjúkrunarheimili þótt það sé ekki helsta ástæðan. Fleiri klukkustundir eru veittar í aðstoð frá opinbera kerfinu, það er heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, í samanburðarlöndunum en hér. Kerfin eru ólík en stundum hefur fjölgað í öllum löndunum. Inga telur fulla ástæðu til að endurtaka grunnrannsóknina til að fá nýrri upplýsingar. Fleiri fara á hjúkrunarheimili hér á landi Fleiri Íslendingar fara á hjúkrunarheimili en aldraðir í sambanburðarlöndunum. Á Íslandi eru þeir 18 prósent, í Finnlandi 13 prósent, í Belgíu 12 prósent og sjö prósent í Þýskalandi. Lægst var hlutfallið á Ítalíu. „Ég er ekki alveg með svarið við því af hverju þetta er en ég reyndi að finna forspárgildi.“ Hvort eitthvað í einkennum þess aldraða geti spáð fyrir um að hann flytji á hjúkrunarheimili. „Og þá var greinilegt í íslensku gögnunum að eitt af forspárgildunum var umönnunarbyrði. Það var eitt af fleiri atriðum sem spila inn í það af hverju einstaklingar flytja á hjúkrunarheimili.“ Íslensku gögnin tóku til nánast allra sem fengu heimahjúkrun á rannsóknartímanum. „Þannig að íslensku gögnin eiga að sýna okkur nokkuð raunsanna mynd af því hvernig þetta er hjá okkur. Það er einmitt þessi umönnunarbyrði sem skoraði hátt í því af hverju fólk flutti. En svo voru það líka auknar líkur á þunglyndi og þessi formlega aðstoð af því hún var svona lítil þá var hún líka að spá fyrir um af hverju fólk var að flytja á hjúkrunarheimili.“ Lengur heima með markvissari þjónustu Inga telur að hægt væri að hugsa þjónustuna upp á nýtt. Reykjavík bjóði til dæmis fjarvöktun í skjáheimsóknum sem hentar þeim sem geta til dæmis mælt blóðþrýsting sjálfir. Þá sé mikil samvinna við Landspítala í að fylgjast með fólki með hjartabilun og veita þjónustu heima í stað þess að fólk fari á bráðamóttöku. Fleiri fagstéttir komi að heimaþjónustu og þannig sé hægt að stytta boðleiðir og bregðast við áður en allt fer á versta veg. „Til dæmis, það er öldrunarlæknir hjá heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það gerir öll viðbrögð miklu styttri. Eins þessi heimaspítali á Selfossi og SELMU-teymið í Reykjavík . Það eru allar boðleiðir styttri, það er hægt að bregðast við fyrr, áður en einstaklingurinn fer í versta ástand.“ „Ég held að þarna sé sóknarfæri. Að við kortleggjum einstaklingana sem eru veikastir heima og hvernig við ætlum að bregðast við: Þegar þetta gerist þá gerum við þetta svona. Getum bara strax byrjað meðferð og þá jafnvel þarf einstaklingurinn ekki að fara inn á bráðamóttöku. Ef við höfum mannafla og fagfólkið sem sinnir einstaklingunum heima þá getum við alveg gert helling.“