Talið er líklegra en áður að kerfi hafstrauma, sem meðal annars flytja sjó nærri ströndum Íslands, hrynji algjörlega. Það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar og loftslagsfræðingur segir brýnt að rannsaka málið betur. Svokallað AMOC-kerfi hafstrauma flytur hlýjan sjó hingað nærri Íslandi, sem verður síðan að kaldari djúpsjó áður en hann flyst aftur suður á bóginn. Golf-straumurinn er hluti þessa ferlis. „Ef það ferli stöðvast, þá myndi minnka varmaflutningur á Norðurslóðir og þá gæti kólnað hér þrátt fyrir að það væri að hlýna alls staðar annars staðar í heiminum,“ segir Halldór Björnsson, fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands. Ný rannsókn sem birt var á dögunum sýnir að mun meiri líkur séu á hruni þessa kerfis en áður var talið. Halldór segir að líklegast að þessar breytingar verði ekki fyrr en á næstu öld. Fyrst muni hér hlýna eins og annars staðar í heiminum en síðan kólna, ef af kerfishruninu verður. Og mögulega gæti kólnað ansi mikið, mögulega með einhverjum áhrifum á lifnaðarhætti hér á landi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að draga megi úr líkum á því, ef dregið verður skarpt úr losun. Því sé mjög brýnt að heimsbyggðin komi sér saman um það. En hvað gerist ef þessi kerfi hafstrauma hrynja? Verður Ísland óbyggilegt eftir 100 ár vegna kulda? Svarið er: Við vitum það ekki. Og það er kannski það sem er óþægilegast. „Þetta er ekki eitthvað sem er að fara að gerast alveg strax. Þetta gerist líklegast ekki fyrr en um lok aldarinnar ef þetta gerist á annað borð. Og við þurfum að skoða betur hverjar afleiðingarnar yrðu.“