Slitrótt jarðskjálftahrina úti fyrir Reykjanestá

Frá Reykjanestá, suðvesturhorni Reykjanesskagans.RÚV / Ragnar Visage Jarðskjálftahrina hófst úti fyrir Reykjanestá á fimmta tímanum í morgun. Þá varð þar skjálfti af stærðinni 3,2. Hrinan er ekki kröftug og hún er slitrót, að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Smá kippur kom í hrinuna um klukkan 9. Þá mældist annar skjálfti yfir 3 að stærð. Yfir 80 skjálftar hafa mælst síðan hrinan hófst, að sögn Kristínar, langflestir þeirra undir 2 að stærð. Kristín segir jarðskjálfta sem þessa vera algenga en þeir stafa af flekahreyfingum. Á þessum slóðum varð sambærileg hrina 8. ágúst.