Xi, Pútín, Lúkasjenka, Erdogan og fleiri saman á ráðstefnu

Leiðtogar margra af stærstu og voldugustu ríkja Asíu er saman komnir í Kína til þess að ræða samstarf ríkjanna. Xi Jinping, forseti Kína, og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, brostu sínu breiðasta þegar þeir tókust í hendur fyrir tvíhliða fund þeirra í morgun. Þessar fjölmennustu þjóðir veraldar hafa þó verið allt annað en vinir síðustu ár og keppst um áhrif í suðurhluta Asíu. Til mannskæðra átaka kom meira að segja þeirra í milli árið 2020 vegna deilna um landamæri ríkjanna. Þýða hefur orðið síðan í fyrra, þegar Modi og Xi hittust í fyrsta sinn í fimm ár. „Hagsmunir tveggja komma átta milljarða íbúa beggja landa eru beintengdir samvinnu okkar,“ sagði Modi við Xi, sem tók í svipaðan streng og sagði að Indland og Kína ættu að vera samherjar, ekki andstæðingar. Fundur þeirra er hluti af ráðstefnu Sjanghæ-samstarfsvettvangsins, sem Kínverjar fara fyrir. Aðild eiga Kína, Indland, Rússland, Pakistan, Íran, Kasakstan, Kyrgystan, Tajikistan, Úsbekistan og Belarús, auk 16 annarra ríkja sem eru áheyrnarfulltrúar. Xi hefur gjarnan notað þennan vettvang til að sýna út á við að Kínverjar séu leiðandi afl í þessum heimshluta. Kínverjar og Rússar hafa meira að segja sagt að Sjanghæ-samstarfsvettvangurinn sé eins konar andsvar við NATÓ, þótt hið fyrrnefnda sé ekki varnarbandalag. Ráðstefnan fer fram í hafnarborginni Tianjin að þessu sinni. Þangað kom Pútín Rússlandsforseti í morgun í fylgd stórrar viðskiptasendinefndar. Erdogan, forseti Tyrklands, lenti einnig í Tianjin í morgun og eiga þeir tveir tvíhliða fund á morgun um stríðið í Úkraínu. Stjórnvöld í Moskvu tilkynntu í gær að Pútín hygðist heimsækja áðurnefndan Modi til Indlands í desember. Samband þeirra er sagt vera á uppleið eftir að Indverjar fóru að kaupa rússneska olíu í meiri mæli og eftir að Trump Bandaríkjaforseti setti á tugprósenta toll á Indland, meðal annars fyrir rússnesk olíukaup.