Ísland friðsælasta land í heimi átjánda árið í röð

Ísland er friðsælasta land í heimi samkvæmt nýjustu úttekt stofnunarinnar Institute for Economics and Peace (IEP). Stofnunin hefur gefið út friðarstuðul sinn, Global Index for Peace, frá árinu 2008. Ísland hefur vermt toppsætið allar götur frá því að listinn var fyrst tekinn saman. Þetta er því átjánda árið í röð sem landið hlýtur þessa nafnbót. Í skýrslunni segir að einkunn Íslands hafi batnað um 2% á milli ára. Þó lækkar einkunn landsins í einum undirlið friðarstuðulsins, þeim er snýr að útgjöldum til hernaðar- og varnarmála. Stofnunin IEP segir Ísland fá framúrskrandi einkunn í þremur helstu flokkum friðarstuðulsins, þá helst í þeim sem tekur til yfirstandandi átaka. Þar fær landið fullkomna einkunn, 1,000, sem er til marks um það að Ísland á ekki aðild að neinum hernaðarátökum, hvorki innanlands né utan. Með afgerandi forystu IEP segir Ísland vera sannan leiðtoga á sviði friðar. Það sýni sterkar stofnanir landsins, lág glæpatíðni, lágmarks hervæðing landsins og mikið samfélagslegt traust. Landið er ekki bara það friðsælasta, heldur einnig það öruggasta. Í öðru sæti listans yfir friðsælustu lönd heims er Írland, rétt eins og í fyrra. IEP vekur athygli á því að munur á einkunnum landanna í tveimur efstu sætunum sé jafn mikill og á milli landanna í 2. og 10. sæti, svo afgerandi er forysta Íslands á listanum. Einkunn Íslands er 1,095 en Írlands 1,260. Svíar og Norðmenn langt á eftir frændþjóðunum Í næstu sætum á eftir Írlandi koma Nýja-Sjáland, Austurríki og Sviss. Meðal Norðurlandanna fær Danmörk bestu einkunnina á eftir Íslandi. Danir sitja í 8. sæti listans og falla niður um eitt sæti á milli ára. Finnar eru í 10. sæti listans. Nokkuð langt á eftir sitja Norðmenn í 32. sæti og Svíar í 35. sæti. Alls eru 163 ríkjum gefin einkunn á friðarstuðlinum. Í neðsta sæti sitja Rússar. Þeir fá einkunnina 3,441 á friðarstuðli IEP. Með litlu skárri einkunn er Úkraína og í þriðja neðsta sæti listans situr Súdan. Í skýrslu IEP segir að friður á heimsvísu haldi áfram að minnka. Vígbúnaður á heimsvísu hafi aukist samhliða aukinni spennu á alþjóðasviðinu. Í nærri tvo áratugi hefur hægt á vígvæðingu ríkja heims, að því er segir í skýrslunni, en nú hefur sú þróun snúist við. Þá hafa átök víða brotist út. Samkvæmt skýrslunni eiga 78 ríki á listanum í átökum sem ná út fyrir landamæri þeirra. Skýrslu IEP má nálgast hér.