Arctic Hydro vill sækja meiri orku úr Eyjafjarðaránni

Félagið Arctic Hydro hefur sótt um rannsóknarleyfi fyrir rennslisvirkjun í Eyjafjarðará. Áformin eru skammt komin, en verði af virkjuninni gæti hún framleitt allt að 5 megavött af raforku. Arctic Hydro er félag sem sérhæfir sig í þróun virkjanakosta og á hlut í tólf litlum og meðalstórum vatnsaflsvirkjunum á nokkrum stöðum á landinu sem telja samanlagt um 22 megavött. Þar á meðal er ein rennslisvirkjun í Eyjafjarðará, Tjarnavirkjun, sem var tekin í notkun sumarið 2020. Uppsett afl í henni er 1 megavatt en nú horfir Arctic Hydro innar í Eyjafjarðardalinn og vill byggja stærri virkjun, sem myndi virkja um 3-5 megavött. Og til að setja þessi megavött í eitthvert samhengi, þá þarf til dæmis gagnaverið sem er í byggingu á Akureyri allt að 14 megavött af orku. Sveitarstjóri fagnar áhuga á raforkuframleiðslu Áformin eru á frumstigi en sveitarstjórn í Eyjafjarðarsveit setur sig ekki upp á móti því að félagið kanni frekari virkjanakosti í ánni. Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri, sagðist raunar fagna því að einkaaðilar vilji auka orkuöryggi á Eyjafjarðarsvæðinu. Næst eru rannsóknir á vatnafari og frumhönnun virkjunar Fram undan eru rannsóknir á vatnafari og frumhönnun virkjunarinnar og Skírnir Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri félagsins segir þau hafa frekari verkefni til skoðunar í nágrenninu. Arctic Hydro, sem samkvæmt ársreikningi 2024 tapaði 453 milljónum það árið og skuldaði þá 8,5 milljarða króna, er með fleiri virkjanakosti í undirbúningi. Þar má nefna Hamarsvirkjun og Geitdalsárvirkjun á Austfjörðum, og Hólsvirkjun og Árskógsvirkjun á Norðurlandi. Meira en 90% af félaginu er í eigu Qair Iceland ehf, sem hefur m.a. sóst eftir byggingu vindaflsvirkjana hérlendis.