Kjósendur verði að hafa valkost til vinstri

Vinstri græn mæta keik til leiks í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir formaður flokksins á flokksráðsfundi sem nú stendur yfir í Borgarnesi. Hún segir samstarf við aðra vinstri flokka vel koma til greina, en engar formlegar viðræður séu hafnar. Svandís segir komandi sveitarstjórnarkosningar eins konar prófstein fyrir VG. Mikilvægt sé að skerpa á stefnum flokksins og halda honum inni í umræðunni. Það reynist erfiðara en áður nú þegar flokkurinn er utan þings og geti ekki komið málefnum sínum á framfæri í ræðustól Alþingis. Spurð hvort áherslubreytingar séu í vændum segir Svandís VG ávallt vera í endurmótun. Hún vonist til þess að umhverfismálin færist ofar á blað hjá kjósendum enda séu þau málefni framtíðarinnar. „Vinstrið um allan heim er í deiglu og það er svona endursköpunarfasi alls staðar. Við eigum að vera óhrædd við það líka í VG.“ Formaður Vinstri grænna segir komandi sveitarstjórnarkosningar prófstein fyrir flokkinn. Flokkurinn eigi enn erindi þrátt fyrir að hafa þurrkast í alþingiskosningum. Hún útilokar ekki samstarf við aðra flokka. Opin fyrir samstarfi við aðra vinstri flokka Svandís segir mikilvægt að snúa bökum saman á fundinum og brýna á því að flokkurinn eigi enn erindi. Eðlilegur liður í því sé að horfa um öxl og skoða hvað hefði betur mátt fara í ríkisstjórnarsamstarfi við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn. Hún leggi þó fyrst og fremst áherslu á að horfa til framtíðar. Tillaga liggi fyrir á fundinum um að hvetja svæðisfélögin til að undirbúa sig undir sveitarstjórnarkosningar næsta vor, í nafni VG eða með öðrum. Mikilvægt sé að halda slíkum samtölum opnum svo kjósendur hafi kost á að kjósa til vinstri. Bæði Píratar og VG duttu út af þingi í síðustu Alþingiskosningum. „Ég verð mikið vör við að fólk er að tala saman í grasrót flokkana og það hefur ekki tekið á sig neina formlega mynd. Mér finnst mikilvægt að halda öllum slíkum samtölum opnum en svo náttúrulega líður tíminn og fólk þarf að fara að ákveða sig hvað það ætlar að gera. En það er mikilvægt að kjósendur hafi valkostinn að geta kosið til vinstri og að geta kosið grænt.“ Hægristefna og harka í ríkisstjórninni Hún segir stöðuna á þingi alvarlega enda séu engir vinstri flokkar í stjórnarandstöðu til að veita hægri- og hörkutónum ríkisstjórnarinnar viðnám. Þeir þrír hægriflokkar sem myndi stjórnarandstöðu, Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hvetji stjórnina frekar til meiri hörku og til að ganga lengra til hægri. „Manni líður stundum eins og umhverfisráðherrann sé frekar að keppa við Guðlaug Þór í að ganga lengra,“ segir Svandís.