Carbfix mun „að sjálfsögðu uppfylla öll skilyrði“ sem þarf

Framkvæmdastjóri Carbfix segist sýna því skilning að ný og breytt starfsemi veki spurningar. Hún segir fyrirætlanir Carbfix um byggingu nýrrar Coda Terminal-stöðvar í Þorlákshöfn enn á mótunarstigi og því sé hægt að grípa til ýmiss konar aðgerða til að bregðast við áhyggjum íbúa og fyrirtækja. Stöðinni er ætlað að dæla allt að þremur milljónum tonna af koldíoxíði niður í jarðlög í Ölfusi, þar sem það binst steindum. Áhyggjur hafa birst í fjölda umsagna í skipulagsgátt. Íbúar vilja meina að áhætta sé tekin með uppsetningu stöðvarinnar. Þeir hafa áhyggjur af því að stöðin geti haft áhrif á vatnsgæði og að aukin skipaumferð geti skert loftgæði. Í umsögn fiskeldisfyrirtækisins First Water í Ölfusi segir að gera þurfi ítarlegri grein fyrir áhrifum stöðvarinnar svo hún geti samræmst annarri nýtingu auðlinda í Ölfusi. Umsögn frá átöppunarfyrirtækinu Icelandic Glacial er af svipuðum toga en þar segir að verkefnið geti haft skaðleg áhrif á ímynd matvælafyrirtækja í grennd stöðvarinnar. Veðurstofan bendir á að stíga þurfi varlega til jarðar vegna mikillar vatnsnotkunar sem fylgi verkefninu. Þá bendir Minjastofnun á hugsanleg áhrif á menningarminjar. Landsnet gerir ekki athugasemdir við fyrirætlanir Carbfix. Uppfyllir öll skilyrði eftirlitsstofnanna „Að sjálfsögðu sýnum við því skilning að ný og breytt starfsemi veki upp spurningar en hins vegar er það þannig að alveg eins og á Hellisheiði þá munum við að sjálfsögðu uppfylla öll skilyrði sem eru sett fyrir starfsemi svona verkefna,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix. Edda segir stöðina í Ölfusi eiga að vera eins og þá sem fyrirtækið hugðist setja upp í Hafnarfirði. Hún sé sambærileg þeirri sem nú er í notkun á Hellisheiði. Edda bendir á að sú stöð uppfylli öll skilyrði eftirlitsstofnanna á borð við Umhverfisstofnun, Orkustofnun, heilbrigðiseftirlits og þar fram eftir götunum. „Coda-verkefnið sem er núna í undirbúningi virkar nákvæmlega eins, þó að koldíoxíðið komi annars staðar frá,“ bendir Edda á. Á Hellisheiði fangar stöð félagsins koldíoxíð og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun. Í Ölfusi er stefnt að því að binda kolefni sem flutt er til landsins frá útlöndum eða frá öðrum stöðum á landinu þar sem niðurdæling hentar ekki vegna jarðfræðilegra aðstæðna. „Markmiðið er að framlengja það sem við erum búin að vera að gera í meira en áratug á Hellisheiði, að byggja verkefni sem hefur jákvæð áhrif á loftslagið með því að fanga og binda koldíoxíð í steindir með okkar öruggu og sönnuðu tækni,“ segir Edda. Hægt að bregðast við ábendingum Umhverfismatsferli stendur yfir og Edda segir fyrirtækið nýta slík ferli til að fá ábendingar sem tryggja öryggi framkvæmda. „Við viljum virkt og gott samtal við íbúa í Ölfusi. Við erum að leggja okkur fram hvað það varðar og fá ábendingar á meðan verkefnið er á mótunarstigi og við erum að gera það meðal annars með því að halda fjölmarga fundi og munum halda áfram að gera það,“ segir Edda. Þar sem verkefnið er enn á mótunarstigi er enn hægt að bregðast við ábendingum sem berast, að sögn Eddu. Það sé til dæmis ekki búið að velja nákvæmlega hvar Coda-stöðin mun á endanum rísa, gangi fyrirætlanir eftir. Í umsögnum má einnig finna kröfu um íbúakosningu um uppbygginguna. Spurð að því hvaða augum hún líti slíkt á, segir Edda: „Það er í rauninni ekki okkar að taka afstöðu til þess, heldur kjörinna fulltrúa. Við munum bara leggja okkur fram við að móta skýrt og öruggt verkefni og að sjálfsögðu að uppfylla öll skilyrði sem eru sett fyrir starfsemi svona verkefnis, eins og við höfum verið að gera undanfarinn áratug.“