Ísland mætir heimamönnum í Póllandi á EM karla í körfubolta í kvöld. Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson segir að það hafi ekki tekið langan tíma að hrista vonbrigði gærdagsins af sér þegar Ísland tapaði naumlega fyrir Belgíu. „Hvernig var nóttin? -Hún var bara fín. Það er fínt að spila leik klukkan tvö, grenja í tvær mínútur, ná að róa sig og sofa vel. Það var geðveikt að fá daginn í að takast á við þetta og svo bara núllstilla sig.“ Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson segir að það hafi ekki tekið langan tíma að jafna sig eftir tapið gegn Belgum á EM í körfubolta í gær. Hann nefnir sérstaklega einn leikmann Póllands sem Ísland þurfi að hafa gætur á í leik þjóðanna í kvöld. „Má ekki halda að við höfum átt lélegan leik“ Ægir segir að það megi ekki gleymast að íslenska liðið hafi í raun leikið vel gegn Belgum í gær þrátt fyrir tapið. „Maður þarf að gera upp tapleiki af því að þú þarft að fókusa á það sem gekk vel. Við áttum frábæra frammistöðu í gær. Það má ekki gleyma því. Það má ekki halda að við höfum átt lélegan leik þó að boltinn hafi farið ofan í vörnin hafi ekki staðið sig síðustu þrjár mínúturnar. Við horfðum á síðustu þrjár mínúturnar og sáum að við sköpuðum okkur helling. Eins og alltaf, þú þarft að taka það með þér í næsta leik.“ Mikilvægast að stoppa Loyd Ægi líst vel á að mæta Pólverjum í kvöld enda hafi liðin mæst í undirbúningi fyrir mótið. Hann segir íslenska liðið vel undirbúið. „Við erum vel undirbúnir fyrir það hvar við ætlum að sækja á þá og hvernig við ætlum að stoppa þá. Það verður náttúrulega mjög krefjandi í þessari stemningu sem verður í kvöld. Við erum fullir sjálfstrausts.“ Ægir segir mikilvægast að stoppa bandaríska bakvörðurinn Jordan Loyd, nýjasta liðsstyrk Pólverja en hann fékk ríkisborgararétt í ágúst og er nú þegar orðinn lykilmaður í hópnum. „Hann er búinn að vera bara leikmaður mótsins hingað til. Hann er búinn að vera að setja skot og það þarf að fókusa á að boltinn sé ekki í hans höndum, að hann sé að losa frá sér og að hann sé að fá auðveld skot. Auðvitað geturðu aldrei stoppað svona leikmann hundrað prósent en við ætlum að gera okkar besta.“