„Við getum það“: 10 ár síðan Merkel bauð flóttamenn velkomna með fleygum orðum

„Wir schaffen das.“ Við getum þetta. Í því kristallaði þáverandi kanslari stefnu Þýskalands í hælisleitendamálum og setti mark sitt á framtíð Þjóðverja sem enn gætir í dag. 10 ár eru í dag síðan Angela Merkel, þáverandi Þýskalandskanslari, lét fleyg orð falla og bauð hælisleitendur frá Mið-Austurlöndum velkomna þangað til lands. Og fólk streymdi að, Þjóðverjum ýmist til ánægju eða ama, og upp spruttu bæði fjölmenningarleg samfélög og harðlínustjórnmálaöfl, sem einsettu sér að vinna gegn áhrifum innflytjendanna. En hvernig tókst til – gátu Þjóðverjar það? 1,2 milljónir manna sóttu um hæli í Þýskalandi árin 2015 og 16. Langflestir frá stríðshrjáðum löndum; Sýrlandi, Írak og Afghanistan, þar sem fólk ýmist sá fram á að hryðjuverkasamtökin ISIS myndu gleypa heimaland þeirra í sig, eða flúði blóðug borgarastríð og ofríki einræðisherra. Ekkert ríki Evrópusambandsins hefur tekið við fleiri hælisleitendum. Vel innan við milljón þeirra eru orðnir þýskir ríkisborgarar og þýskukunnáttu þykir ábótavant. Fram kemur í samantekt Deutsche Welle um þessi tímamót , að rétt ríflega helmingur karlkyns hælisleitenda kunni þýsku en rétt um þriðjungur kvenna. Ríflega helmingur sem sótti um hæli fyrir áratug sagðist hafa fengið hlýjar móttökur en sjö árum síðar sýndu kannanir að hlutfallið hafði lækkað til muna. Nokkrum sinnum hafa hælisleitendur frá Mið-Austurlöndum framið ofbeldis- og voðaverk í Þýskalandi, sem hefur breytt skoðunum almennings á hælisleitendamálum og í mörgum tilfellum gert fólk hrætt við að hryðjuverkasamtök kunni að hafa hreiðrað um sig í Þýskalandi. Tölfræði lögreglu sýnir að fólk af erlendum uppruna eru gerendur í 35% allra sakamála þar í landi, þrátt fyrir að telja aðeins 17% íbúa Þýskalands. Það er þó ekki þar með sagt að hælisleitendur eigi alltaf í hlut. Erlendir ferðamenn og meðlimir alþjóðlegra glæpasamtaka brjóta vitaskuld líka af sér þar í landi. Verulega dró úr hælisumsóknum í Þýskalandi eftir flóttamannastrauminn 2015 og 16. Eftir innrás Rússa í Úkraínu 2022 kom þó önnur jafnvel stærri bylgja og í dag hafa á fjórðu milljón manna af erlendum uppruna sest að í Þýskalandi. Árið 2015 sá mikill minnihluti Þjóðverja ástæðu til þess að fækka dvalarleyfum fyrir hælisleitendur. Það hefur þó breyst og í dag vilja 68% Þjóðverja ekki taka við fleirum á flótta. Það helst í hendur við fylgisaukningu fjarhægriflokksins Alternativ fur Deutschland, AfD, sem breyttist á 10 árum úr smáflokki í ráðandi afl í þýskum stjórnmálum. Kanslari Þýskalands, Friedrich Merz, hefur sagt að stefna flokkssystur hans og fyrrum mótherja innan Kristilegra demókrata, hafi augljóslega ekki gengið upp. En hvað finnst henni sjálfri? „Það er ferli í sjálfu sér. En við höfum áorkað miklu og það sem enn þarf að gera, þarf að gera af meiri áræðni. En fyrir mitt leyti skiptir mjög, mjög miklu máli hvernig menn nálgast þetta málefni, sem er mjög flókið, “ segir hún í nýlegu viðtali við þýska ríkissjónvarpið . Hún segir að allt þetta fólk hafi þegar verið komið til Evrópu. Fótgangandi, með aleiguna í bakpokum, haldndi á ungabörnum, alla leið frá heimkynnum sínum í Mið-Austurlöndum. „Og þá voru valkostirnir: Tökum við á móti þeim? Eða reynum við að gera eitthvað, sem að mínu mati hefði alls ekki gengið, til þess að bægja þeim frá með því að sprauta á það með brunaslöngum eða öðru ofbeldi. Það hefði aldrei verið til umræðu í mínum bókum og ég hefði aldrei samþykkt slíkt.“