Leikurinn var nokkuð jafn lengst af, en Arsenal varð fyrir blóðtöku eftir aðeins fjögurra mínútna leik þegar franski miðvörðurinn William Saliba þurfti að fara meiddur af velli. Arsenal vörnin hefur verið afar öflug í byrjun leiktíðar á meðan Liverpool hafði fengið á sig tvö mörk í leik í síðustu leikjum. Ibrahima Konate og Milos Kerkez höfðu helst verið gagnrýndir fyrir varnarleik sinn í þeim leikjum en báðir spiluðu þeir þó vel í dag. Konate þurfti þó reyndar að yfirgefa völlinn meiddur þegar ellefu mínútur voru eftir og Joe Gomez sem hefur verið orðaður við AC Milan undanfarinn sólarhring kom inn í hans stað. Liverpool hafði meiri stjórn á leiknum í seinni hálfleik og skoraði meðal annars mark á 61. mínútu en Hugo Ekitike var réttilega dæmdur rangstæður. En á 81. mínútu braut Martin Zubamendi á varamanninum Curtis Jones rétt utan vítateigs og Liverpool fékk aukaspyrnuna sem Dominik Szoboszlai skoraði svo glæsilega úr. Liverpool hefur nú níu stig af jafn mörgum mögulegum en Arsenal er með sex stig. Liverpool er þar með á toppnum og raunar eina liðið sem hefur unnið alla þrjá leiki sína í deildinni þar sem af er leiktíð. Nú tekur við landsleikjahlé en næsti deildarleikur Arsenal er svo heimaleikur við Nottingham Forest 13. september. Liverpool á hins vegar útileik við nýliða Burnley degi síðar.