Forsvarsmenn Van Gogh-safnsins í Amsterdam í Hollandi hafa undanfarin tvö ár staðið í deilum við menningarmálaráðuneytið um fjármögnun endurbóta. Safnstjórinn, Emilie Gordenker, segir að ef deilurnar dragast frekar þurfi líklega að loka safninu. Tímabært sé að ráðast í endurbætur á húsnæði safnsins því að óbreyttu séu aðstæður þar bæði hættulegar fyrir verkin sem þar eru varðveitt og safngestina. Þetta sýni skýrsla sjálfstæðrar nefndar. Mikilvægt sé að ríkið virði samkomulag sem gert var þegar safnið var sett á fót. Það hefur að geyma stærsta safn verka Vincents Van Gogh og endurbætur þykja tímabærar. „Það er það síðasta sem við viljum en ef við gætum orðið að loka byggingunni,“ segir Gordenker í viðtali við The New York Times . Vilja að ríkið brúi bilið Safnið hefur óskað eftir aukafjárveitingu að jafnvirði 365 milljóna króna ofan á árlegan 1,2 milljarða króna ríkisstyrk til að standa straum af viðgerðum á loftræstingakerfi hússins og lyftum og endurbótum á eldvörnum, öryggi og sjálfbærni. Ráðuneytið telur að safnið ætti að fjármagna það sem upp á vantar. Safnið telur að ekki verði hægt að ráðast í endurbæturnar nema hollenska ríkið virði samkomulag um stofnun safnsins frá árinu 1962. Þá var samið við frænda van Gogh sem færði ríkinu verkin að gjöf gegn því að safn yrði byggt yfir þau. Safnið telur ríkið hafa rofið samkomulagið og hefur höfðað mál sem líklega fer fyrir dóm á næstu mánuðum. Í samkomulaginu fellst ríkið á að byggja safn í miðborg Amsterdam og „tryggja varðveislu safnkostsins, rétt eins og væri hann í eigu þess“. Menningarmálaráðuneyti Hollands hafnar því að safnið sé svo illa statt. Styrkir sem það hafi fengið eigi að duga fyrir viðhaldi. Safnið fái, eins og önnur söfn landsins, fasta upphæð á hvert í stuðning og hann fylgi verðbólguþróun. Stuðningur við Van Gogh-safnið sé jafnvel meiri en við önnur söfn, sé miðað við stuðning á hvern fermetra, og teljist ekki brot á samkomulaginu frá 1962. Saga van Gogh safnsins Vincent van Gogh lést í Frakklandi 29. júlí 1890, tveimur dögum eftir að hann skaut sig í brjóstið. Theo, bróðir hans, var hjá honum þegar hann lést. Theo var listaverkasali og þeir bræður voru mjög nánir. Theo lést sex mánuðum síðar. Jo van Gogh-Bonger, ekkja Theos, helgaði líf sitt varðveislu á verkum mágs síns og arfleiddi son sinn að þeim. Hann var alnafni föðurbróður síns. Vincent yngri stofnaði sjóð um varðveislu verkanna árið 1960. Tveimur árum síðar samdi hann við hollenska ríkið um að það tæki við safninu og reisti safn utan um þau. Van Gogh-safnið var opnað í Amsterdam árið 1973. Um 1,8 milljón gesta sækir safnið árlega. Fjölskylda van Goghs segir ríkið skuldbundið Ættingjar listamannsins sitja í stjórn sjóðsins og segja í yfirlýsingu að samkomulagið frá 1962 sé enn í fullu gildi. Ríkið sé því skuldbundið til að tryggja fjármögnun varanlegs húsnæðis sem geri safnkostinn aðgengilegan gestum í dag og framtíðarkynslóðum. Að öðrum kosti brjóti ríkið gegn lögboðnum skuldbindingum sínum. Ekkert annað safn í Hollandi fær jafn mikið í kassann og van Gogh-safnið, sem getur reitt sig á miðasölu, veitinga- og minjagripasölu fyrir 85 prósent af rekstrarkostnaði. Safnið telur sig hins vegar þurfa meira til að geta endurnýjað húsið, sérstaklega vegna þess að loka þurfi húsinu að hluta í þrjú ár meðan á framkvæmdum stendur. Safnið áætlar að tapa um 29 milljónum dollara tekjum á tímabilinu. Til að flækja málin enn frekar var menningarmálaráðherra Hollands einn af þeim ráðherrum sem sögðu af sér á miðvikudag út af deilum um refsiaðgerðir gegn Ísrael vegna stríðsins á Gaza. Óvíst er hvaða áhrif mannabreytingar í ríkisstjórn hafa á framkvæmdir á safninu.