Helsti talsmaður Hamas-samtakanna ráðinn af dögum

Abu Ubaida, helsti talsmaður herskás arms Hama-samtakanna, var drepinn í árás Ísraelshers. Þetta segir Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels. Ubaida hafði séð um að koma skilaboðum Hamas-samtakanna á framfæri í um tvo áratugi. Hamas-samtökin hafa ekki staðfest þetta. Í frétt BBC er Ubaida sagður hafa fallið í árás Ísraelshers á Gaza-borg í gær. Öryggisráð Ísraels kom saman til fundar í dag til þess að ræða um næstu skref í yfirtöku Gaza-borgar. Ráðið samþykkti fyrr í mánuðinum að ráðast í innlimun borgarinnar. Alþjóðasamtök og þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt áform ísraelskra stjórnvalda um yfirtöku borgarinnar. Einn af yfirmönnum Ísraelshers hefur sett sig upp á móti áformunum og segir þau stefna lífi gísla í hættu. Í Tel Aviv mótmælti stór hópur Ísraela sókn hersins inn í Gaza-borg og áframhaldandi stríðsrekstri hersins. Herinn fikrar sig nær kjarna Gaza-borgar Ekkert lát er á árásum Ísraelshers og stórfelldar árásir voru gerðar á úthverfi Gaza-borgar í nótt. Heilbrigðisyfirvöld segja þrjátíu hafa verið drepna á Gaza í dag. Þrettán í þeim hópi voru að sækja sér mat á dreifingarstöð. Íbúar í Sheikh Radwan, einu stærsta hverfi Gaza-borgar, segja við Reuters að fólk hafi þurft að flýja í vesturhluta borgarinnar vegna skriðdreka- og loftárása Ísraelshers. Einn viðmælenda Reuters segir herinn fikra sig nær kjarna borgarinnar, þangað sem hundruð þúsunda hafa flúið. Engin leið er til þess að flytja fólk á brott með öruggum hætti, að mati yfirmanns Rauða krossins. Hvergi á Gaza-ströndinni séu innviðir til þess fallnir að taka við fólksfjöldanum. Alls staðar skortir mat, húsaskjól, lyf og lækningavörur.