Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hefur heitið því að svara árásum næturinnar.AP / Efrem Lukatsky Tugir þúsunda voru án rafmagns í Úkraínu eftir drónaárásir Rússa á orkuver þar í landi í nótt. Í Odessa í suðurhlutanum voru 29 þúsund íbúar án rafmagns eftir árásir á fjögur orkuver í héraðinu. Þar var mikilvægum innviðum haldið gangandi með rafölum. Í Tsjernihív-héraði í norðri misstu 30 þúsund heimili rafmagn. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti heitir því að svara með árásum sem ná langt inn fyrir rússnesku landamærin. Bæði Rússar og Úkraínumenn hafa hert loftárásir sínar á síðustu vikum. Rússar hafa einkum haft orku- og samgönguinnviði í Úkraínu í sigtinu. Úkraínumenn hafa helst ráðist á olíuvinnslustöðvar og olíuleiðslur í Rússlandi.