Hadia Rahman er frá Kabúl í Afganistan. Hún veit hvernig það er að vera barn á flótta því hún flúði Afganistan ásamt fjölskyldu sinni þegar Talíbanar náðu völdum. Það var erfitt að yfirgefa heimili sitt í óvissu um framtíðina. Hadia sagði sögu sína á málþingi sem UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa héldu um stöðu og velferð barna á flótta. Ung kona frá Afganistan, sem kom hingað til lands sem barn á flótta, segir það hafa verið erfitt að yfirgefa heimili sitt og fara út í óvissuna. Áfall að vera barn á flótta Hadia segir að allt hafi breyst daginn sem Talibanar tóku völdin í Afganistan. Hún segist hafa orðið hrædd af því að strax hafi verið ljóst að hún, og fjölskylda hennar, þyrftu að flýja. Pabbi Hadiu starfaði sem lögfræðingur hjá NATO og Bandaríkjaher. Fjölskylda Hadiu gerði þrjár tilraunir til að komast með flugi frá Kabúl flugvelli. „Og við reyndum að fara þrisvar í flugvél, til að komast eitthvert. Það skipti engu hvert, bara komast í burtu frá Afganistan.“ Hadia segir að ástandið á flugvellinum hafi verið hrikalegt og mikill fjöldi sem reyndi að komast úr landi brott. Systir Hadiu, og eiginmaður hennar, týndust í fjöldanum og náðu ekki að flýja með þeim. Fjölskyldunni tókst að lokum að flýja til Katar. Þaðan fóru þau til Ítalíu og svo Kosovo þar sem þeim bauðst að flytja til Íslands sem flóttamenn. Erfitt að setjast að í nýju landi Hadia kom til Íslands í árslok 2021 ásamt yngri systkinum sínum, foreldrum, ömmu og frænkum. Hún segir það hafa verið erfitt að þekkja engan og mikil viðbrigði að heimili þeirra, sem alltaf var fullt af gestum í Afganistan, var nú sem einangrað. Hún segir þau varla hafa séð fólk úti á götu. „Þú ferð á annan stað og byrjar allt lífið og allt frá byrjun. Það er svo erfitt, nýtt tungumál, nýtt samfélag. Nýtt fólk. En ég er ánægð að vera á Íslandi núna. Að minnsta kosti erum við örugg.“ Pabbi Hadiu átti erfitt með að fá vinnu, en á endanum fékk hann vinnu á bílaþvottastöð. Hann vann langar næturvaktir en þrátt fyrir það dugðu launin hans ekki til að framfleyta fjölskyldunni. Hadia ákvað strax að læra íslensku og hún stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Nýtir allan frítíma til að læra Hadia tekur strætó á hverjum morgni frá Ásbrú, í Reykjanesbæ, og í Háskóla Íslands. Hún segist nota allan sinn frítíma í lærdóm og oft vera þreytt á kvöldin. Hún segir að lífið á Íslandi sé gott en að það sé ekki auðvelt. Fjölskylda hennar hefur rekið sig á veggi, sérstaklega í byrjun, en að þau vilji leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið betra. „Í byrjun er allt erfitt, ef þú vilt gera eitthvað í framtíðinni og ef þú vilt ná árangri í framtíðinni þarftu að gera mikið í byrjun. Til að fá eitthvað í framtíðinni. Og vonandi gengur vel hjá mér að gera framtíðina betri.“